Tilhögun utandagsskrárumræðu

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 16:19:56 (1399)


[16:19]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að þurfa að tefja þingstörfin með þessum hætti. Ég vil taka það fram að ég velti því fyrir mér með hvaða hætti ég gæti komið þessu máli hér að í dag og niðurstaðan varð sú að sjálfsögðu að beita 50. gr. þingskapa en þar sem þar er annaðhvort um að ræða yfirlýsingu eða fyrirspurn til ráðherra þá liggur í augum uppi að ráðherra verður að beita fyrir sig yfirlýsingunni og þegar ég spurðist fyrir um það hvort slíkt hefði verið gert áður þá voru svörin ákaflega skýr. Þetta hefur gerst tvisvar sinnum áður. Það var þegar hv. 8. þm. Reykn. var fjmrh. þá mun hann tvisvar sinnum hafa notað þessa grein til þess að koma sjónarmiðum sínum til skila. Tvisvar sinnum, hv. 8. þm. Reykn. Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var fjmrh. Þess vegna þótti eðlilegt að gera þetta með þessum hætti þó að ég viti að sumum þykir það ekki eðlilegt að feta að öllu leyti í fótspor hv. þm. þá þótti mér samt sem áður ekki óeðlilegt að gera þetta með þessum hætti.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að ræða efnislega um málið en ég vil láta það koma fram að ég reyndi að sjálfsögðu að hafa samband við hv. þm. Hann var ekki í Alþingishúsinu né á sinni skrifstofu. Ég bað um að hann hringdi til mín sem hann gerði þannig að honum var vel ljóst um hvað málið snerist áður en til umræðunnar kom. Þannig að það var ekkert á hann hallað í þessari umræðu nema síður sé.
    Að lokum bara þetta: Það hefur ekkert verið gert í þessu máli sem hér hefur verið rætt sem ekki byggist á bréfum sem send voru og samin í ráðherratíð hv. þm. Ekkert. Það sem hins vegar hefur komið fram í umræðunni í dag er ósköp einfaldlega það að hv. þm. hefur sagt að hann hafi beitt sér í þessu mál en starfsmenn ráðuneytisins og starfsmenn skattyfirvalda hafa tjáð mér að slík fyrirmæli eða beiðnir hafi aldrei komið frá hv. þm. ( ÓRG: Hafa þeir þá verið að samþykkja skattsvikin allan þennan tíma?)