Tilhögun utandagsskrárumræðu

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 16:22:27 (1400)


[16:22]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi taka hér upp mál hv. þm. Inga Björns Albertssonar. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að yfir það mál verði farið. Túlka menn breytinguna á þingsköpum þannig að formenn þingflokka geti gert samninga sem banna þingmönnum að tala umfram þann tíma sem ákveðinn er í samkomulagi á milli flokkanna? Túlki menn þetta þannig þá fullyrði ég, af því að ég stóð að þessari breytingu á sínum tíma, að þetta sé talsvert öðruvísi en við gerðum ráð fyrir þegar breytingin var gerð á þingskapalögunum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að formenn þingflokkanna og aðrir sem aðild eiga að þessum málum tjái sig um það hvort þeir líta þannig á að þeir hafi til þess umboð að semja um að einstakir þingmenn sem kveðja sér hljóðs eftir að hver flokkur hefur notað sinn tíma, að einstakir þingmenn geti í raun og veru við þær aðstæður ekki óskað eftir að kveðja sér hljóðs. Það tel ég vera brot á hinum almenna anda þingskapanna hvað sem öllu öðru líður og ef þetta er skoðun manna þá tel ég alveg óhjákvæmilegt að það mál verði tekið upp og þingsköpin endurskoðuð á ný því það er stórhættulegt ef menn líta þannig á að það sé hægt að banna einstökum þingmönnum að tala við aðstæður eins og þessar.
    Í öðru lagi er hitt ekki síður alvarlegt, hæstv. forseti, að það hefur verið upplýst hér að hæstv. fjmrh. hafi fengið umræðuna í hálftíma á fölskum forsendum. Hann hafi fengið umræðuna á þeim forsendum að hann ætlaði að gefa almenna yfirlýsingu um þau mál sem nefnd voru hér áðan, þ.e. tekjuskattsmál blaðburðafólks en hann ætlaði sér hins vegar aðallega að beina orðum sínum gegn hv. 8. þm. Reykn. Það er því alveg augljóst mál að hæstv. ráðherra hefur gefið hæstv. forseta upp falskar ástæður í þessu efni og ekki í raun og veru gert grein fyrir því af hverju hann þurfti að kveðja sér hljóðs. Tilefnið var það að

hæstv. fjmrh. vildi gera árás á einn þingmann í salnum hvort sem þingmaðurinn væri hér eða ekki sem er hægt að álykta af þeim umræðum sem hér hafa farið fram.