Tilhögun utandagsskrárumræðu

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 16:25:14 (1401)


[16:25]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna ummæla hv. 5. þm. Reykv. áðan um tilhögun umræðna hér. Mig langar til þess að fara með það sem segir í þingsköpum um samkomulagsmöguleika þingflokka að því er varðar umræður um tiltekin mál. Hér segir, með leyfi forseta, í 72. gr. þingskapa:
    ,,Forseti getur þá, með samþykki allra þingflokka, ákveðið að ræðutími skuli vera annar en ákveðið er í 44., 48. og 50. gr. og hve lengi umræðan má standa.``
    Hér var farið eftir ákvæðum 50. gr. þannig að það er ljóst að þetta ákvæði á við.
    Það segir jafnframt síðar í þessari grein þingskapanna: ,,Formenn þingflokka eru réttir aðilar gagnvart forseta að því er varðar lenginu ræðutíma, . . .   svo og breytingar samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar.``
    Það er því alveg ljóst að það eru formenn þingflokka sem hafa umboð til þess að semja fyrir hönd þingflokkanna um þetta mál og meðan menn eru þingmenn í ákveðnum þingflokkum þá á þetta ákvæði við um þá eins og aðra þingmenn og menn geta ekkert skotið sér undan því. (Gripið fram í.)
    Hér segir hins vegar jafnframt og ég vil vekja athygli á því að ef ákvörðun er tekin um breyttan ræðutíma um slíka ákvörðun skal þó leita samþykkis þingfundar ef a.m.k. þrír þingmenn krefjast þess.
    Ég minnist þess að við hv. 9. þm. Reykv. áttum orðastað um þetta atriði á sínum tíma þegar var verið að undirbúa þessi þingsköp. Þannig að ef menn vilja ekki una því sem um er samið sem formenn þingflokka sem réttir aðilar fyrir hönd þingflokkanna semja um þá geta menn borið það undir þingfundinn ef þeir fá einhverja tvo aðra þingmenn með sér til þess. ( Gripið fram í: Þetta er rangt.) Nei, nei, áður en það er ákveðið. Það er ekkert vafamál. Ef menn vilja ekki una því samkomulagi sem tilkynnt er af forsetastóli að hafi náðst milli formanna þingflokka þá eiga menn rétt á því að bera það undir þingfundinn.
    Hitt er annað mál að ef það er ekki gert og þegar samkomulag sem þetta er gert þá gildir það auðvitað um alla þingmenn sem aðild eiga að þingflokkum sem að slíku samkomulagi standa. Það gildir um hv. 5. þm. Reykv. eins og aðra þingmenn. Þó hann mæti ekki mikið á þingflokksfundi hjá okkur í Sjálfstfl. þá situr hann í nefndum á vegum þingflokksins í þinginu. Hann tekur þátt í alþjóðasamstarfi á vegum þingsins í nafni þingflokks sjálfstæðismanna og þess vegna gildir svona samkomulag um hann eins og aðra þingmenn Sjálfstfl.