Tilhögun utandagsskrárumræðu

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 16:31:58 (1405)


[16:31]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Sem gamall blaðburðardrengur væri nú ánægjulegt að fá að ræða um meginefni þessarar umræðu í dag. En ég ætla að halda mig við fyrirkomulag umræðunnar og þær umræður sem um hana hafa sprottið. Ég sá strax og utandagskrárumræðan var boðuð að hér stefndi í óefni. Ég taldi að það væri mjög undarlegt að ekki sé nú meira sagt að ráðherra óskaði eftir utandagskrárumræðu í 30 mínútur, ætlaði sjálfum sér fimm mínútur til að gefa hér yfirlýsingu og síðan áttu þingmenn að fá tvær mínútur hver. Ég óskaði eftir því við hæstv. forseta að það yrði haldinn fundur þingflokksformanna þar sem þetta mál yrði nánar rætt því ég tel að þetta sé misbeiting á 50. gr. þingskapanna og var ekki að fara neitt í launkofa með þá skoðun mína á fundi þingflokksformanna hér í dag.
    Ég tel að í tilvikum sem þessum þá sé alveg ljóst að um er að ræða munnlega skýrslu af hálfu ráðherra þar sem hann vill koma á framfæri greinargerð fyrir opinberu málefni með munnlegri skýrslu til Alþingis eins og segir í 45. gr., 3. mgr. Þá á að fara um þá umræðu eins og um sé að ræða skriflega skýrslu og hver þingmaður á þá að fá 15 mínútur til ráðstöfunar. Það hefði verið það eina eðlilega í þessu máli. Og ég vek á því athygli að í 50. gr. er ekkert minnst á það að ráðherrar gefi yfirlýsingar en þingmenn geta gefið yfirlýsingar. Það má spyrja sig að því hvort greinin rúmar það tilvik að þingmaður sem jafnframt er ráðherra sé að gera grein fyrir störfum sínum sem ráðherra undir þessum lið. Ég dreg það í efa enda er greinin alls ekki þannig orðuð og miðast öll við það að hér eigist við málshefjandi annars vegar og viðkomandi ráðherra hins vegar. Það er alveg ljóst af öllu tilefninu að hér var um að ræða munnlega skýrslu ráðherra og umræður á grundvelli þess.
    Þessi skilningur minn naut hins vegar ekki nægilegs stuðnings á fundi þingflokksformanna og þegar virðulegur forseti þingsins bauð það fram til sátta að ráðherrann talaði fjórar mínútur og síðan einstakir þingmenn, einn frá hverjum flokki í fjórar mínútur og síðan í annarri umferð mættu allir tala tvær mínútur þá féllst ég á það sem málamiðlun og neyðarlendingu í þessu máli en ég held að málið í heild hljóti að gefa tilefni til þess að það sé nánar skoðað hvernig ráðherra kemur sjónarmiðum sínum á framfæri í umræðum af þessu tagi.