Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:26:10 (1425)


[12:26]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Enginn getur mælt því í mót að bátaútgerðin hefur gegnt afar mikilvægu hlutverki í landinu um áratuga skeið, er grundvöllur búsetu í fjölmörgum byggðarlögum og skiptir mjög miklu máli fyrir afkomu og atvinnulíf þjóðarinnar. Það er kunnara en frá þurfi að segja að eigendur smábáta á aflamarki stríða nú við mjög erfiðar og alvarlegar aðstæður. Í dag er úthlutaður þorskkvóti til þessara báta aðeins 27% af þeim þorskveiðiheimildum er lagðar voru til ákvörðunar kvótunum árið 1991 og hafa þeir því orðið að þola 73% skerðingu aflaheimilda sinna í þorski sem er uppistaðan í veiðum þessara báta.
    Nú er svo komið að fjöldi báta hefur ekki möguleika til þess að fiska meira en rétt til að standa undir tryggingum af sjálfum sér. Staða smábátaútgerðarinnar er mjög veik gagnvart lána- og sjóðakerfinu, en hún hefur ekki aðgang að Fiskveiðasjóði, Byggðasjóði eða Atvinnutryggingarsjóði, en verður í þess stað að eiga sín fjármunaviðskipti við bankastofnanir og kaupleigur á afar dýrum kjörum, háum vöxtum og stuttum lánstíma. Nú er svo komið þegar hallar svo undan rekstri smábátaútgerðar á aflamarki að bankarnir herða sínar innheimtuaðgerðir og ganga hart að eigendum þessara báta og eignum þeirra.
    Smábátaútgerðin í landinu hefur ekki notið margvíslegra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til síðustu ár, m.a. um lánalengingar, skuldbreytingar og frestun afborgana lána. Landssamband smábátaeigenda hefur vakið athygli á því að tæpast verður komist hjá eignamissi fjölda fjölskyldna sem þessari útgerð tengjast og að fjölmargir hafi nú þegar misst eigur sínar og atvinnu og hafi orðið að þola mannlega niðurlægingu. Þetta eru þung varnaðarorð sem ekki verður komist hjá að taka alvarlega. Þau krefjast viðbragða og aðgerða.
    Við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða voru málefni smábáta og kvóta ítarlega rædd. Allt svigrúm um tilfærslur frá einum til annars innan kvótakerfisins er afar þröngt án þess að það bitni á öðrum, enda hefur öll útgerð orðið að þola hina miklu skerðingu á veiðiheimildum í botnfiski undanfarin ár. Hér bregst í raun kvótakerfið sem stjórnunartæki í fiskveiðum. Við þá endurskoðun bundu menn þó miklar vonir, að fiskverndunarstefna síðustu ára mundi skila árangri og skapa skilyrði til þess að auka við þorskveiðiheimildir fyrir yfirstandandi fiskveiðiár en sú varð ekki raunin. Enn dundi ný skerðing yfir sem nam 15,5%, fimmta skerðingin á fjórum árum. Bátur sem hafði 50 tonn í aflareynslu í upphafi árs 1991 má nú veiða 13,5 tonn af þorski.

    Það eru mörg fordæmi fyrir því að ríkisvaldið grípi inn í til aðstoðar þegar sorfið hefur að einstaka greinum sjávarútvegsins eða einstaka landshlutum. Hæstv. sjútvrh. hefur lýst áhyggjum sínum á vettvangi sjávarútvegsins af stöðu smábátaútgerðarinnar. Það er því sannarlega þörf á að grípa til sértækra aðgerða til þess að bjarga þessari útgerð hreinlega frá því að hverfa gersamlega og koma fjölskyldum sem tengjast þessari útgerð til bjargar frá gjaldþroti sem þetta fólk á enga sök á. Þvert á móti eru það ytri aðstæður og ákvarðanir stjórnvalda sem þessu ástandi valda. Það eru því öll rök sem hrópa á aðgerðir fljótt.
    Ég veit að hæstv. sjútvrh. hefur skilning á þessu máli og þekkir það gjörla. Því spyr ég hæstv. sjútvrh. hvort vænta megi aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar til hjálpar smábátaútgerðinni í landinu í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna er við blasa.