Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:30:56 (1426)


[12:30]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er rétt hjá hv. málshefjanda að skertar aflaheimildir, einkanlega í þorski, valda verulegum erfiðleikum í útgerð á Íslandi. Það er hins vegar misskilningur að kvótakerfið eigi einhverja sök í þeim efnum. Það er ekki svo komið fyrir þorskstofninum sem raun ber vitni vegna þess. Það er líka misskilningur að við höfum orðið fyrir vonbrigðum með verndunaraðgerðir og að þær hafi mistekist. Þvert á móti má segja að okkur hafi mistekist að fylgja fram nægjanlega markvissum verndunaraðgerðum.
    Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir margvíslegum ráðstöfunum til þess að tryggja rekstur sjávarútvegsins í þeim erfiðleikum sem hann hefur gengið í gegnum, m.a. vegna aflabrests, og með þeim árangri að þrátt fyrir minnkandi afla og verðfall er sjávarútvegurinn í heild rekinn með lítils háttar hagnaði. Sem betur fer hefur sjávarútvegurinn getað nýtt sér uppsveiflu á ýmsum sviðum veiða, bæði að því er varðar loðnuveiðar og rækjuveiðar og sjávarútvegurinn hefur getað sótt á ný mið utan landhelginnar og nýtt áður vannýtta eða lítt nýtta fiskstofna. Aðstaða sjávarútvegsins hefur hins vegar verið mismunandi að þessu leyti. Stærri skipin hafa átt auðveldara með að jafna sveiflur og bregðast við minnkandi þorskveiði með því að hagnýta sér aðra möguleika. Stóru fyrirtækin hafa getað jafnað þessar sveiflur með hagræðingu í veiðum og samruna fyrirtækja og fleiri aðgerðum af því tagi.
    Bátaflotinn hefur hins vegar ekki haft þessa aðstöðu. Það á jafnt við um hinn hefðbundna bátaflota og smábátana sem hv. þm. gerði hér sérstaklega að umtalsefni. Fyrir þá sök hef ég litið svo á að það þyrfti sérstaklega að horfa til þeirra. Bæði hins hefðbundna bátaflota og smábátanna.
    Ég fór þess vegna þess á leit við Fiskveiðasjóð í haust að kannað yrði með hvaða hætti sjóðurinn gæti komið til móts við bátaflotann í þessum þrengingum. Í framhaldi af þessari ósk minni hafa staðið yfir athuganir hjá Fiskveiðasjóði um það að sjóðurinn gripi til lánafyrirgreiðslu vegna skertra veiðiheimilda. Það er nú verið að vinna að því hvernig unnt er að útfæra þá lánafyrirgreiðslu sem þá kæmi til bátaflotans, ekki til ísfisktogaranna, ekki til vinnsluskipanna og ekki til loðnuflotans.
    Það er rétt sem hefur komið fram hjá hv. málshefjanda að smábátarnir hafa ekki notið lánafyrirgreiðslu í Fiskveiðasjóði. En á þeim undirbúningsfundum sem fram hafa farið milli ráðuneytisins og Fiskveiðasjóðs hefur sú ósk verið borin fram af hálfu sjútvrn. að við þessa aðgerð njóti smábátar á aflamarki sömu fyrirgreiðslu og aðrir bátar. Ég tel að fyrir því séu gild rök og að þessi útgerð í landinu eigi að sitja við sama borð við ráðstafanir af þessu tagi. Ég vænti þess að þessari undirbúningsvinnu ljúki fljótlega. Ég vænti þess einnig að stjórn Fiskveiðasjóðs taki jákvætt þeim tilmælum ráðuneytisins að smábátarnir verði teknir með í þessum aðgerðum. Það er rétt sem hv. þm. segir að bátaflotinn og þar á meðal smábátarnir gegna mjög mikilvægu hlutverki í því að nýta fiskiauðlindina og að tryggja eðlilega atvinnu í fjölmörgum sjávarplássum hringinn í kringum landið. Þess vegna getum við ekki horft á að þarna verði óeðlileg röskun og fyrir þá sök hefur þessum tilmælum verið komið fram við Fiskveiðasjóð. Ég vona að þær ráðstafanir sjái dagsins ljós innan skamms tíma.