Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:36:07 (1427)



[12:36]
     Ragnar Þorgeirsson :
    Virðulegur forseti. Það er margsannað mál að flestir okkar aflamenn fyrr og síðar hafa byrjað sinn sjómanns- og skipstjórnarferil á smábátum. Þar komast menn í náið samband við náttúruna, skynja stórkostlegt afl hafsins og læra að bera fyrir því tilhlýðilega virðingu. En dapurleg er staða smábáta á aflamarki. Eigendur þeirra eru í mjög þröngri stöðu. Það á raunar við um útgerð allra báta og skipa á aflamarki þó stærri bátar standi eilítið betur. Hinn hefðbundni vertíðarbátur, t.d. bátaflotinn á Snæfellsnesi, hefur átt í verulegum erfiðleikum vegna þorskkvótaskerðingar. Útgerðum þeirra báta hefur þó tekist að bæta sér upp hluta hörmunganna með veiðum á rækju og skel annars vegar og kola og steinbít hins vegar svo

dæmi séu nefnd. Þarna eru erfiðleikar miklir og tekjutap.
    Mér þótti rétt að minna á þetta hér til að gæta sannmælis og kippa ekki einum útgerðarflokki úr samhengi, smábátum á aflamarki.
    Stærstu skipin geta vegið upp stóran hluta skerðingar sinnar með veiðum utan kvóta, karfa á Reykjaneshrygg, þorski úr Barentshafi. Þetta gátu þeir á þessu ári en enginn veit hvað þeir geta á næsta ári vegna samskipta við erlendar þjóðir varðandi Barentshafið og vegna takmarkaðrar þekkingar á úthafskarfastofninum.
    Minnstu bátarnir eiga enga möguleika á að ná sér í afla með þessum hætti. Það er staðreynd og þeir hafa gleymst í kerfinu.
    Einnig er krókaleyfiskerfið að riða til falls. Mér finnst ekki galin sú hugmynd að breyta krókaleyfi í færaleyfi. Öflugustu bátarnir sem sigldu inn í þetta kerfi í skugga nætur og tóku sér bólfestu eru að fiska á annað hundrað tonn á línu og jafnvel meira. Þessir bátar eiga enga samleið með trillum sem eru að fiska 15--25 tonn á ári. Þeir eiga að vera á aflamarki eða færum. Vissulega verður að bæta þeim upp sem kostur er þá breytingu sem yrði á högum þessara útgerða.
    Sótt hefur verið um styrk til úreldingar á tugum báta. Að mínu mati er þetta stórkostleg eyðilegging. Krafist er úrlausnar mála lítilla aflamarksbáta, báta sem í raun geta enga björg sér veitt.