Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:43:26 (1430)


[12:43]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir það að hafa beðið um þessa umræðu. Þó hefði verið full ástæða til þess að hafa hér lengri umræðu og um fiskveiðistefnuna almennt. Ég vil vekja athygli á því að Fiskveiðasjóður er aðallánasjóður íslensks sjávarútvegs og það er ranglát stefna hjá Fiskveiðasjóði að hafa útilokað ákveðnar stærðir báta og eiginlega undravert hvað það hefur verið liðið lengi.
    Ég vil leiðrétta það hjá hv. málshefjanda að Byggðastofnun lánaði fyrir að mig minnir sex árum rúmlega 300 millj. kr. stofnfjárframlög til smábáta. Það var gert að beiðni þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat. Ég vil líka segja að fáir málaflokkar hafa betur innheimst almennt en þessir þó að þar sé auðvitað um frávik að ræða sem eru slæm.
    Ég held að það skipti smábáta og sömuleiðis hina venjulegu vertíðarbáta ekki síður máli að gerð verði sú breyting á útfærslu þessara laga um stjórnun fiskveiða að úthafsveiðiskip og hinir stærstu togarar hafi ekki leyfi til þess að veiða uppi við landsteina. Þetta eru skip sem eru byggð fyrir að stunda veiðar á úthafinu og þar eiga þau að vera en ekki eins og nú er á kostnað vélbátaútgerðarinnar almennt í landinu.