Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:47:54 (1432)


[12:47]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Sjávarbyggðirnar allt í kringum landið treysta nú orðið miklu meira á afla smábátanna en áður og eru að reyna að bjarga sér frá atvinnuleysi og auka vinnu við fiskinn með því að auka útgerð smábáta. Allt í kringum landið gengur þetta svona fyrir sig. Núna gerist það að hið nýsamþykkta kvótakerfi sem var staðfest í vetur leið hefur þau áhrif að það verður þrengt enn meir að þessum útgerðaraðilum.
    Ég held að það sem kom í ljós við afgreiðslu þessara laga á sl. ári hafi verið nákvæmlega það að hér á hv. Alþingi hefur ekki verið vilji til þess að horfast í augu við það hrun sem þau lög munu hafa í för með sér ef þau fá að ganga fram eins og til þeirra var stofnað. Og hv. þm. sem biður um þessa umræðu, hv. 5. þm. Austurl., hann samþykkti þessi lög hér í fyrravetur eða hans varamaður, hvor sem heldur var. Nú koma menn aftur eftir að hafa fellt allar þær tillögur sem við bárum fram í þessu efni t.d. við alþýðubandalagsmenn um að þessir bátar, t.d. þeir minnstu þeirra, fengju að fara inn í krókakerfið og tillögur um að þeir fengju hlut í krókaleyfisaflanum sem hefði verið hægt að samþykkja án þess að mótmæli þeirra hefðu komið til sem þarna eiga hlut að máli. Og nú standa menn frammi fyrir því að byggðirnar sem hafa verið að treysta á þetta til að bjarga sér út úr aflaleysinu bíða eftir nýju hruni. Ég tel að

hæstv. sjútvrh. þurfi að koma hér í ræðustól og viðurkenna að ríkisstjórnin er þarna á röngum brautum og stjórnarflokkarnir þurfi að taka þessi mál öll til endurskoðunar.