Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:55:14 (1435)


[12:55]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. frummælanda fyrir að vekja máls á þessu vandamáli og ég tek undir hans orð. En hvers vegna er svona komið fyrir sjávarútveginum hér á landi? Það er einmitt komið svona fyrir honum og fiskstofnunum vegna þessa kvótakerfis sem við notum. Hver er friðunin? Er það friðun að hleypa frystitogurum með flottroll upp undir landsteina eins og viðgengst? Skapar það friðun að við veiðum öll þessi ósköp af fiski sem svo er hent í sjóinn? Skapar það verðmæti fyrir þjóðarbúið að fara svona með auðlindina?
    Núverandi fiskveiðistjórnun er sprungin. Hún er sprungin framan í feður sína og framan í þjóðina. Landsmenn flestir gera sér þetta ljóst. Á þetta vandræðakerfi sem örfáir menn halda uppi að ganga frá þjóðinni?