Málefni smábáta á aflamarki

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 12:58:43 (1437)


[12:58]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Það er vissulega svo að hér er við verulegan vanda að etja í íslenskum sjávarútvegi og ég tel að ég hafi þegar svarað efnislega þeirri fyrirspurn sem fram kom af hálfu málshefjanda. Ég tek undir með hv. 1. þm. Vestf. Það er ranglátt hvernig smábátunum hefur verið haldið utangarðs hjá Fiskveiðasjóði og ég vænti þess að þau tilmæli sem hann stendur núna frammi fyrir leiði til þess að þar verði teknar upp nýjar reglur og við þá aðgerð sem ætlunin er að koma í framkvæmd þá verði smábátarnir hafðir með.
    Ég tel að annað sé óverjandi í þeirri stöðu sem við erum í dag. Auðvitað leysir þetta engan vanda og það er engin einföld lausn á því þegar afli hefur minnkað, það getur enginn galdrað upp úr hattinum einhverja töfralausn og tryggt óbreyttan rekstur allra útgerða í landinu þegar þorskaflinn minnkar jafnmikið og raun ber vitni um. Enda hefur ekki komið fram í máli neins hv. þm. nein slík töfralausn vegna þess að þær eru auðvitað ekki til. En við freistum þess að beita öllum tiltækum ráðum til að hjálpa mönnum í gegnum þann öldudal sem menn þurfa að sigla og sú aðgerð sem ég hef hér nefnt er veigamikill þáttur í því.
    Í tilefni ræðu hv. 5. þm. Suðurl. þá vil ég rifja það upp vegna þess að hann gerði það hér að sérstöku ásökunarefni í garð ríkisstjórnarinnar að hafa þrengt nokkuð framsalsmöguleika í fiskveiðistjórnunarlögunum. Það var gert vegna sérstakra óska sjómannasamtakanna í landinu og til þess að greiða fyrir lausn á verkfalli sjómanna og útvegsmanna. Eini flokkurinn hér í þinginu sem stóð gegn óskum sjómanna var Framsfl. og þeir eru enn að stæra sig af því. Það er athyglivert.