Framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 13:14:13 (1440)


[13:14]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Það sem liggur ljóst fyrir í þessu máli og hefur legið ljóst fyrir í nokkurn tíma er að það hefur verið gefið út námaleyfi til vinnslu kísilgúrs í Ytriflóa og námaleyfið gildir til ársins 2010. Hvað verður eftir þann tíma er hins vegar ófrágengið og það er ekki og hefur ekki verið gert neitt í málinu sem leiðir til þess að eftir árið 2010 sé ekki hægt að vinna kísilgúr úr Mývatni.
    Það liggur í hlutarins eðli að gildi fréttatilkynningar eins og þeirrar sem gefin var út af umhvrn. daginn áður en námaleyfið var gefið út, þar sem lýst var yfir að ákveðið hefði verið í ráðuneytinu að kísilgúrnámi á botni Mývatns yrði hætt eigi síðar en í lok ársins 2010, er ekki neitt. Þessum málum verður ekki stjórnað með fréttatilkynningum og áframhald málsins er háð samþykki Alþingis. Alþingi hefur ekki fjallað um þetta mál. Það var lagt fram frv. til laga eða öllu heldur sýnt frv. til laga þar sem gert var ráð fyrir því að kísilgúrnám á botni Mývatns yrði óheimilt en þá var í því lagafrv. heimilað að vinna kísilgúr úr botni á tilteknu svæði á Ytriflóa til ársloka 2010.
    Um þetta frv. sem var sýnt náðist ekki samkomulag í ríkisstjórn né heldur í þingflokki Sjálfstfl. þannig að það frv. sem slíkt hefur ekkert gildi. Það liggur því ljóst fyrir í þessu máli að hvað verður um Kísilgúrverksmiðjuna eftir 2010 er óljóst. Það sem hefur hins vegar skaðað málið mjög mikið er að það hafa komið yfirlýsingar um að kísilgúrnámið verði ekki heimilað eftir þann tíma og þær yfirlýsingar eru til mikillar skaðsemi.