Framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 13:28:58 (1446)


[13:28]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu samkomulag sem hæstv. ríkisstjórn gerir við Náttúruverndarráð um það að kísilgúrnám skuli ekki heimilt úr Mývatni eftir árið 2010. Hæstv. ríkisstjórn ber náttúrlega fulla ábyrgð á þessu samkomulagi, hvort sem hún hefur ætlað að standa við það eða ekki, það er mér óljóst. Hæstv. landbrh. sem og aðrir ráðherrar bera ábyrgð á því.
    Ég hins vegar gagnrýni þetta samkomulag vegna þess að mér finnst það ekki skynsamlegt að taka um það ákvörðun árið 1994 að kísilgúrnám sé ómögulegt úr Syðriflóa árið 2010. Vegna þess að það er hægt að beita við það öðrum aðferðum en gert er í dag að ná þessu efni úr vatninu. Það hafa ekki verði þróaðar aðrar aðferðir. Ég geri mér grein fyrir því að þeir gígar sem gerðir hafa verið eru skaðvænlegir og ég mæli ekki með því að farið verði í framkvæmdir af því tagi í svokölluðum Bolum. Hins vegar er langur tími fram til ársins 2010 og það er mjög líklegt að það verði hægt að þróa aðferð til að ná þessu efni þannig undan vatninu að það falli jafnt, það myndist ekki gígar. Þess vegna finnst mér rangt að taka um það ákvörðun í dag að þetta geti ekki átt sér stað eftir svo mörg ár sem raun ber vitni og gagnrýni því hæstv. ríkisstjórn fyrir að hafa staðið að samkomulagi sem þessu.
    Ég er hins vegar sannfærð eða hef alla vega grun um að það hafi verið brögð í tafli þegar hæstv. ríkisstjórn gerði þetta samkomulag, hún hafi aldrei ætlað sér að standa við það.
    Að síðustu vil ég segja það, hæstv. forseti, að það að setja lög í dag um að námaleyfi sé óheimilt eftir árið 2010 þýðir að verksmiðjunni verður lokað innan örfárra ára. Það er alvarlegt fyrir íbúa í þessu sveitarfélagi.