Framtíð Kísiliðjunnar við Mývatn

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 13:31:28 (1447)


[13:31]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Þessi umræða hefur leitt ýmislegt í ljós og staðfest það sem ég hafði grun um að hæstv. ráðherrar þessarar ríkisstjórnar og þar með ríkisstjórnin í heild hafi talað tungum tveim þegar þetta mál var kynnt fyrir hálfu öðru ári síðan og það hafi skipt öllu máli hvort var verið að tala við sveitarstjórnarmenn norður í Mývatnssveit eða stjórnarmenn Kísiliðjunnar eða hvort það var Náttúruverndarráð suður í Reykjavík. Hins vegar sýnist mér að hæstv. ríkisstjórn sé föst í eigin gildru og það sé í raun Náttúruverndarráð sem hafi öll tök og völd í málinu.
    Það hefur einnig komið fram í þessari umræðu, sem mér fannst athyglisvert, að það er bókað í fundargerðarbókum ríkisstjórnarinnar að þar hafi öll þessi málsmeðferð verið samþykkt, þar á meðal náttúrlega af hæstv. landbrh. sem talar síðan alltaf eins og honum komi málið ekkert við. Að sjálfsögðu ber hæstv. landbrh. ábyrgð á öllum gerðum þessarar ríkisstjórnar á meðan hún situr. En kannski verður það ekki nema fram á morgundaginn þannig að það fari að styttast í þeim vandræðum.
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það einnig sem hér hefur komið fram að það sem um ræðir er ekki það hvort vinnsla hættir 2010 eða ekki. Það sem málið getur snúist um er það hvort vinnsla hættir 1996. Ég býst við að ýmsir í þessum sal muni kætast þá. En í árslok 1996 rennur út sölusamningur ríkisins við erlendu samstarfsaðilana. Það er þá líklegasti tímapunktur sem yrði uppi ef vinnslu yrði hætt.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, ítreka það sem ég sagði í upphafi míns máls að úr því sem komið er þá sé ég einu leiðina þá að málið komi til kasta Alþingis og Alþingi fái að skera úr í þessu máli af því að ríkisstjórnin er búin að koma því í það öngstræti sem það er í í dag.