Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1993

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 14:46:03 (1452)


[14:46]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Á bls. 10 í ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 1993 er birt súlurit sem sýnir heildarupphæð lána og styrkja frá Byggðastofnun seinasta áratuginn. Ef þetta súlurit er nánar skoðað má glöggt sjá að á árunum 1986--1990 hefur heildarupphæð lána og styrkja verið á bilinu 1.900--2.700 millj. kr. á ári. Lægst voru þessi lán á árunum 1987, 1989 og 1990 eða í kringum 1.900 millj. en hæst á árinu 1988 í kringum 2.700 millj. kr. Allt er þetta reiknað á sama verðlagi, þ.e. á verðlagi í janúar 1994. Ef síðan er litið á hver eru lán og framlög á árinu 1993 kemur í ljós að þau eru dottin niður í 726 millj. á því ári, þ.e. þau eru orðin minna en helmingur, jafnvel aðeins 1 / 3 af því sem þau áður voru.
    Ef við lítum svo á samsvarandi tölur fyrir árið sem er að líða, þ.e. árið 1994, þá er allt útlit fyrir að lánveitingar og styrkir á árinu 1994 verði komið niður í 600 millj. á sambærilegu verðlagi árið 1994.
    Sem sagt fyrirgreiðsla þessarar stofnunar hefur minnkað þannig að hún er aðeins lítið brot af því sem var fyrir tiltölulega fáum árum síðan og það má segja að á árinu 1994 sé þessi fyrirgreiðsla, þessar lánveitingar og þessir styrkir, aðeins fjórðungur, jafnvel aðeins fimmtungur af því sem var á síðari hluta seinasta áratugs.
    Til viðbótar við þetta er rétt að geta þess að þegar sagt er að lánveitingar og styrkveitingar á árinu 1993 hafi verið 726 millj. þá verður að draga þar frá þá upphæð sem fór í það að endurlána áður veitt lán, þ.e. endurskipuleggja þau lán sem höfðu þegar verið veitt til þess að fá út hvað voru raunveruleg ný lán. Við það lækkar upphæðin um hvorki meira né minna en 180 millj. og er þá komin niður í 545 millj. fyrir árið 1993 og sennilega í kringum 500 millj. á árinu 1994.
    Þetta eru vissulega mjög dapurlegar tölur en þær sýna líka um leið hvernig núv. hæstv. ríkisstjórn hefur meðhöndlað Byggðastofnun, hvernig hún hefur haldið á byggðamálunum. Það er einfaldlega verið að kyrkja þessa starfsemi.
    Auðvitað er meginvandi stofnunarinnar sá að framlögin eru allt of lítil. Á árinu 1994 eru framlögin aðeins 185 millj. kr. og þá verða menn að hafa það í huga að laun og annar kostnaður við að reka stofnunina er 175 millj., þ.e. framlagið fer nokkurn veginn allt í það að greiða almennan rekstrarkostnað stofnunarinnar. Það er nánast ekkert eftir til þess að bjóða hagstæð kjör til þess að mæta afskriftum eða til að veita styrki.
    Af þessum 175 millj. er mjög stór hluti sem fer til ráðgjafarstarfseminnar. Það fara 25 millj. til atvinnuráðgjafanna og síðan 16 millj. til viðbótar í ýmiss konar verkefnastyrki. Þannig að í ráðgjafarstarfsemina víðs vegar um land fara 41 millj. Fyrir nokkrum árum síðan var þessi upphæð aðeins 6 millj. en hún er komin upp í 41 millj. vegna þess að núv. ríkisstjórn hefur á einu bretti afhent þessari stofnun að standa undir þeirri starfsemi sem áður var kennt við iðnráðgjafa og heitir núna atvinnuráðgjöf án þess að útvega stofnuninni neinar tekjur til að standa undir þessum kostnaði. Þetta er eitt af því sem er að kyrkja

þessa stofnun og allt hennar starf.
    Menn geta að sjálfsögðu spurt sig að því hvort þörf sé á byggðastefnu eða er hún kannski úrelt? Er engin þörf á byggðastefnu? Af þessum tölum mætti sannarlega helst ráða að þetta væri skoðun núv. ríkisstjórnar.
    Við alþýðubandalagsmenn erum á allt annarri skoðun og vonandi eigum við samherja í mörgum öðrum flokkum. Það er alveg ljóst að af þremur ástæðum er mikil þörf á að vinna í þessum málum, þessum byggðamálum. Í fyrsta lagi til þess að vinna gegn fólksflóttanum inn á höfuðborgarsvæðið utan af landi. Í öðru lagi til þess að vinna gegn atvinnuleysi sem hefur farið vaxandi og í þriðja lagi verður það að viðurkennast að lífsskilyrði úti á landi eru með ýmsum hætti erfiðari en á höfuðborgarsvæðinu og hvers konar byggðastyrkir eru úrræði til þess að vinna þar gegn. Þá á ég við það að raforkuverð er hærra víða um land, símkostnaður er verulega miklu meiri, kyndingarkostnaður er mjög víða afar hár og verð á innfluttum vörum er gjarnan miklu hærra en á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að vörurnar koma hingað inn á Reykjavíkursvæðið og eru síðan fluttar og þeim dreift út um landið en allt kostar það verulegt fjármagn.
    Það eru sem sagt nægar ástæður til þess að halda þessu starfi áfram sem núv. ríkisstjórn er að kyrkja í greip sinni. Það er þörf á því að vinna gegn atvinnuleysinu með aðstoð við stofnun fyrirtækja og með því að veita stuðning og styrki til nýjunga í íslensku atvinnulífi. Þar verður ríkisvaldið að hjálpa til, það verður að hjálpa atvinnulífinu við það að brjótast út úr þeim vítahring sem það er í og Byggðastofnun er einmitt tæki í höndum stjórnvalda sem hefur oft og tíðum komið að mjög góðum notum í þeirri baráttu. Það starf má ekki falla niður.
    Ég álít að framlög til byggðamála þurfi a.m.k. að þrefaldast frá því sem nú er. Það væri algjört lágmark ef þessi starfsemi á ekki alveg að lognast út af. Ég vek á því athygli að í öllum Evrópulöndum er stuðningur ríkisvaldsins við byggðamál og byggðaþróun miklu meiri en er á Íslandi. Ég hef áður nefnt það í þessum sal og vil endurtaka það að ef stuðningur ríkisvaldsins við byggðamál og Byggðastofnun væri hliðstæður því sem er að meðaltali í löndum Evrópusambandsins við byggðamál og Byggðastofnun væri hliðstæður því sem er að meðaltali í löndum Evrópusambandsins þá væri sá stuðningur um það bil 1.500 millj. kr. á ári hverju. Sú upphæð er einfaldlega fengin með viðmiðun við fólksfjölda. Ef skoðað er hver er meðalstuðningur landanna eða ríkjanna í Evrópusambandinu við byggðamál og sá stuðningur er framreiknaður miðað við íbúatölu þá væri þessi stuðningur á Íslandi í kringum 1.500 millj. en hann er í mesta lagi 300--400 millj. ef allt er talið. Þá er maður að leggja saman framlagið í Byggðastofnun, framlag í Framleiðnisjóð landbúnaðarins og kannski einhverjar einstakar sporslur til viðbótar eins og Vestfjarðaaðstoðina sem nú er í gangi og dreifist bersýnilega á fleiri en eitt ár þannig að það geta verið um þessar mundir um að ræða í heildina tekið framlög til byggðamála upp á 400--500 millj. kr. Og eins og ég segi þá er þetta framlag, 400--500 millj. kr., minna en einn þriðji af því sem veitt er í byggðastyrki til ýmiss konar verkefna í löndum Evrópusambandsins.
    Ég vek á því athygli samtímis að þegar ég nefni 1.500 millj. sem ætti að vera hér á landi miðað við það sem er í löndum Evrópusambandsins þá er ég ekki að reikna þar með styrkina til sjávarútvegsins eða styrkina til landbúnaðarins sem eru verulegir í þessum löndum öllum. Sjávarútvegur í þessum löndum er verulega styrktur og landbúnaðurinn er það líka. En þær upphæðir eru algerlega þar fyrir utan, teljast ekki með í þessari stóru upphæð. Við erum að tala um hreina styrki til byggðaþróunar og byggðamála út frá byggðasjónarmiðum en ekki út frá sjónarmiðum einstakra atvinnuvega þannig að við sjáum að hvað þetta varðar erum við langt á eftir öðrum þjóðum. Við vorum það hins vegar ekki fyrir fáum árum síðan, eins og ég hef minnst á, þá var stuðningur við byggðamál verulega miklu meiri en hann er nú. Og ég vek á því athygli að vandamálin hér á Íslandi eru síst minni en þau eru í mörgum nálægum ríkjum. Ég tel að vandamálin hér á Íslandi séu jafnvel stærri en víða annars staðar vegna þess að fólksflótti hér úr dreifðum byggðum landsins inn á höfuðborgarsvæðið, inn á Stór-Reykjavíkursvæðið hefur verið miklu meiri á undanförnum áratugum heldur en verið hefur í flestum öðrum löndum álfunnar. Þetta er miklu meira vandamál hér en víðast hvar annars staðar og þá er það í litlu samræmi við þá staðreynd að hér skuli styrkirnir vera svo smávaxnir sem raun ber vitni. Á þessu sviði er þörf algerrar stefnubreytingar.
    Virðulegi forseti. Ég á víst stuttan tíma eftir og verð því að ljúka máli mínu senn, en ég vil taka undir það sem kom hér fram hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni áðan að það er þörf á því að endurskoða ráðgjafarstarfsemina sem nú á sér stað. Ég vék að henni hér áðan og hún hvílir að nokkru leyti í höndum og á ábyrgð Byggðastofnunar. Hún er líka á vegum Búnaðarfélags Íslands og búnaðarsambanda í nokkuð stórum stíl eins og menn þekkja en það mun líklega vera um 150 millj. sem ganga til ráðgjafarstarfsemi á sviði landbúnaðar. Ég er ekki að mæla með því að dregið sé úr þeirri starfsemi, síður en svo. Ég held að hún hafi komið að mjög miklum notum á undanförnum áratugum og ég mæli ekki með því að úr henni sé dregið. En ég hygg að það væri gott að það væri meira skipulag á þessum hlutum og að þjónustan við landbúnaðinn yrði með einhverjum hætti tengd við þjónustuna við aðra atvinnuvegi þannig að það væri meira samstarf um þessa starfsemi. Ég held að hún kæmi að meiri notum ef þessar skrifstofur gætu verið stærri og öflugri og menn væru ekki að binda sig svo algerlega við einstaka atvinnuvegi sem raun ber vitni. Frumkvæði heimamanna sem mjög hefur farið vaxandi á seinni árum á þessu sviði er mjög mikilvægt og við eigum alls ekki að fara að miðstýra þessu meira en gert er í dag. En það þarf að samræma þessa starfsemi og það væri af hinu góða að endurskipuleggja hana í heild sinni.