Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1993

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 15:40:39 (1456)


[15:40]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Sú ársskýrsla Byggðastofnunar fyrir síðasta ár sem nú er til umræðu hefur að geyma ýmsan fróðleik um starfsemi Byggðastofnunar en ekki hvað síst vitnisburð um þá stefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur haft á þessu kjörtímabili. Líka má að nokkru leyti sjá í skýrslunni afleiðingar af þeirri stefnu.
    Hæstv. forsrh. hafði frumkvæði að því að tala um málið í heild sinni á sínu tímabili og gera þar úttekt á þannig að það er eðlilegt að menn velti fyrir sér stefnu stjórnar hans og beri saman við aðra stefnu sem menn hafa haft uppi.
    Víða á landsbyggðinni blasir við ýmislegt sem ekki er beint fagurt. Atvinnulíf er víða afar illa statt og sums staðar nánast í rúst. Ríkisstjórnin sjálf hefur viðurkennt það, m.a. með tillöguflutningi og lagasetningu um aðgerðir til aðstoðar atvinnulífi í einum fjórðungi sérstaklega. Það segir meira en mörg orð um það ástand sem er þar en er líka að nokkru leyti í flestum öðrum landsbyggðarkjördæmunum og reyndar er ekki hægt að undanskilja höfðuborgarsvæðið því að ástandið í atvinnumálum þjóðarinnar er þannig að það er verra þar en víða út á landi.
    Vitnisburðurinn er ekki ríkisstjórninni hagstæður. Þau mælitæki sem menn hafa til þess að gera úttekt á stöðu atvinnulífs og lífskjörum fólks eftir búsetu gefa okkur til kynna að verulegt sé að undir stjórn núv. ríkisstjórnar.
    Það sem ég hefði viljað leggja áherslu á og tel að stefna stjórnvalda á hverjum tíma eigi að grundvallast á er ekki endilega einhver tiltekin byggðastefna eða einhverjar áherslur um byggðaáætlanir. Ég hef satt að segja ekki mjög mikla trú á því að mönnum takist svo vit sé í og sæmileg skynsemi að gera slíkar byggðaáætlanir út í hörgul eins og viðleitnin virðist vera. Ég er satt að segja afar vantrúaður á að þessi skipulagshyggja sé það lausnarorð sem menn vilja vera láta. Ég held reyndar að áætlunarbúskapur af þessu tagi eigi eftir að mistakast eins og víða annars staðar. Mér finnst það merkilegt að framlag Sjálfstfl. til byggðamála á Íslandi skuli vera að leggja ofurkapp á sérstakar byggðaáætlanir, á áætlanagerð og skipulagshyggju. Má segja að stefnueinkenni núv. ríkisstjórnar sé einmitt í þessu, áherslunni á áætlanagerðina annars vegar og hins vegar áhersla á að ríkisvaldið komi hvergi nálægt til stuðnings atvinnulífinu. Þetta tvennt stendur upp úr að mínu viti sem höfuðatriðin í stefnu núv. ríkisstjórnar. Hvað bæði þessi atriði varðar er ég þeirrar skoðunar að þau hafi reynst illa og ekki sé ástæða til af komandi ríkisstjórn að viðhalda þessum þáttum sem aðalatriðum í einhverri tiltekinni byggðastefnu.
    Ég held reyndar að menn eigi að leggja til hliðar eins og hægt er þau viðhorf að hægt sé að taka út úr eitthvað sem heitir byggðamál. Því þegar grannt er skoðað koma byggðamál inn á alla þætti í þjóðlífinu og verða ekki aðgreind sérstaklega nema á þann veg að það skaðar frekar en hitt þá sem ætlunin er að hjálpa, þ.e. landsbyggðarfólki.
    Ég tel að menn eigi að tileinka sér annað hugarfar sem byggir á öðrum þáttum og vinna út frá þeim. Ég tel að menn eigi að reka pólitíska þjóðmálastefnu sem hefur það í öndvegi að tryggja fólki atvinnu í fyrsta lagi og byggir í öðru lagi á jöfnuði og í þriðja lagi á rétti. Þessi grundvallaratriði eigi að vera leiðarljósið þegar menn stika út stefnuna í ólíkum og mismunandi málaflokkum en allir eigi þeir að vera grundvöllur að stefnunni í hverjum og einum málaflokki og menn eigi að tvinna þá saman eftir því sem efni og ástæður leyfa.
    Ef við lítum á fyrsta þáttinn í því sem ég nefndi, atvinnu, þá felast í því að mínu viti nokkur atriði. Í fyrsta lagi felst í því að menn reki auðlindanýtingastefnu sem tryggir atvinnu þeirra sem nýta auðlindina. Inn í þetta kemur þá löggjöf um mál eins og stjórn fiskveiða því sú löggjöf hefur auðvitað mikil áhrif á stöðu byggða sem lifa á tiltekinni auðlind, hvort sem það er á landi eða sjó. Við sjáum það víða, ekki bara á Vestfjörðum, heldur í mörgum öðrum kjördæmum landsins að atvinnuöryggið er í uppnámi vegna þess að löggjöfin um stjórn fiskveiða er séreignarlöggjöf en ekki sameignarlöggjöf af því að menn hafa valið þann kost að stjórna fiskveiðum með löggjöf sem færir réttinn til að nýta auðlindina í hendur tiltekinna útvalinna einstaklinga. Þeim er síðan heimilað að versla með þann rétt, óháð búsetu eða fyrri nytjum eða öðru slíku. Það er algjörlega óásættanlegt að byggja atvinnustefnu í höfuðatvinnuvegi okkar, sjávarútvegi, á þessu séreignarfyrirkomulagi. Það teflir í tvísýnu öllum grundvallaröryggishagsmunum almennings, annarra sem lifa á þessari atvinnu, hvort sem það er með beint eða óbeint. Eitt það alvarlegasta í ástandinu í dag er að mínu viti öryggisleysi fólks í sjávarplássum í raun og veru nánast hvert sem litið er, í nánast hvaða sjávarútvegsplássi sem er á landinu. Þau eru ekki mörg þannig stödd að fólk geti gengið með sæmilega öruggt til náinnar framtíðar að sínum atvinnuhagsmunum. Löggjöfin um nýtingu auðlindarinnar hefur grundvallaráhrif á það sem menn vilja kalla byggðamál.
    Í öðru lagi eiga stjórnvöld að hafa afskipti af uppbyggingu atvinnulífs þegar mönnum þykir ástæða til. Menn eiga ekki að vera með neina trúarbragðastellingar í því máli. Menn eiga að nýta sameiginlegt afl þjóðarinnar og sameiginlegan sjóð landsmanna til uppbyggingar þegar menn telja ástæðu til og þörf á. Það er að mínu viti farsælli atvinnustefna en sú sem rekin hefur verið í tíð núv. ríkisstjórnar sem má orða eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur stundum gert: ,,kemur-mér-ekki-við`` stefnan.
    Í þriðja lagi tel ég að stjórnvöld eigi að beina uppbyggingu og fjárfestingu í atvinnumálum þannig að menn fái hámarksatvinnuöryggi fyrir lágmarksfjárfestingarkostnað. Stjórnvöld eiga að reka heilsteypta atvinnustefnu í fjárfestingarmálum sem leiðir til þess að menn nytji auðlindir eins og sjóinn eða í öðrum atvinnugreinum með tækjum sem eru eins ódýr og kostur er. Þar er ég að andmæla þeirri stefnu sem verið hefur í mörg undanfarin ár í sjávarútvegi þar sem menn hafa farið út í æ dýrari fjárfestingar. Menn leiðast stig af stigi frá bátum og upp í togara og frá togurum upp í frystitogara. Menn eru ævinlega að færa sig í stærri og dýrari fjárfestingar stig af stigi. Þó hvert frystiskip sem sjálfstæð eining í eigin heimi sé og kunni að vera hagkvæmt fyrir þá sem það eiga er það í heildarsamhengi fjarri því að vera vænlegasti kostur okkar eða sá kostur sem skilar mestum afrakstri fyrir þjóðarbúið í heild.
    Ég held t.d. að útflutningsverðmæti afla af frystitogara sé minna en ef sami afli væri unninn í frystihúsi í landi. Fyrir utan það að slíkt ferli skapar fleirum vinnu en hitt. Stjórnvöld eiga að stuðla að því að sem flestir hafi vinnu og að vinnan sem sköpuð er sé með atvinnutækjum sem eru eins ódýr og kostur er og alla vega að menn séu ekki að kosta til þess dýrari atvinnutæki en þörf er á.
    Í mörgum töflum sem hægt er að skoða um fjárfestingar má sjá að fjárfestingarkostnaður á bak við ársverk er ákaflega mismikill eftir því hvernig atvinnutækið er og menn eiga ekki endilega að velja ávallt dýrasta kostinn.
    Þetta er í grófum dráttum hugmyndafræðin á bak við hugtakið atvinna sem ég nefndi áðan. Ég nefndi í öðru lagi hugtakið jöfnuð. Þar er ég að tala um jöfnuð óháðan búsetu eða öðrum atriðum sem ekki er ástæða til að fallast á að eigi að réttlæta að menn búi við mismunandi aðstöðu. Ég er að tala um jöfnuð í lífskjörum, jöfnuð á sviði orkukostnaðar, símakostnaðar, vöruverðs, námskostnaðar og þess háttar hluti. Það er auðvitað pólitísk stefna að leitast við að hafa jöfnuð í þessum þáttum. Það er greinilegt og þarf ekki að rökstyðja það sérstaklega að auðvitað er mikill áherslumunur á stefnu núv. ríkisstjórnar og stefnu okkar alþýðubandalagsmanna hvað þetta varðar.
    Undir orðið jöfnuð set ég líka samgöngubætur en þær er nauðsyn til að menn geti náð fram jöfnuði eða minnkað þann ójöfnuð sem fyrir er að menn bæti samgöngur um land allt og geri landið þannig smátt og smátt að einu samgöngusvæði og jafnvel einu markaðssvæði eins og stundum er sagt. Það verður ekki gert nema menn leggi töluvert á sig til að koma á góðum samgöngum og þar er ég að tala um vegi, flugvelli og hafnir. Byggðastefnu ríkisstjórnar sér auðvitað stað í samgöngustefnu hennar alveg eins og í stefnu hennar í lífskjörum og jöfnuði.
    Í þriðja lagi er rétturinn og það er líka pólitískt atriði, að menn viðurkenni rétt manna til ákveðinna hluta og leitist við að hafa þann rétt sem jafnastan með það að markmiði auðvitað að hafa hann jafnan í einhverjum skilningi sem menn eru sammála um.
    Þar er ég að tala um rétt til læknisþjónustu, heilbrigðisþjónustu, rétt til menntunar, rétt og aðgang að sérfræðingum og rétt og aðgang að opinberri þjónustu og svo auðvitað líka þáttur sem ekki má gleyma sem er kosningarréttur. Ég vil ekki gera lítið úr því að menn hafi áhuga á því að jafna þann rétt eins og annan og vil leyfa mér að taka undir áhuga manna eða viðleitni til þess að jafna þann rétt, en ég vil jafnframt minna á þessa grunnhugsun sem ég hef reynt að koma til skila í mínu erindi um atvinnujöfnuð og rétt, að menn byggi sínar pólitísku ákvarðanir á þeirri hugmynd.