Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1993

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 16:30:39 (1461)


[16:30]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Ég færi ræðumönnum þakkir fyrir þær umræður sem hafa átt sér stað um skýrslu Byggðastofnunar og þau mál sem þeirri skýrslu tengjast beint eða óbeint. Ekkert er óeðlilegt í tengslum við skýrslu af þessu tagi að umræður fari nokkuð vítt í framhaldi af hinu afmarkaða umræðuefni.
    Ég get tekið undir þau orð sem komu fram hjá hv. 1. þm. Vestf. að nauðsynlegt er og hefur verið nauðsynlegt að samræma betur en nú er gert starfsemi lánastofnana og banka og kannski aðallega að stuðla að því að meiri samræmingar gæti í útlánastarfsemi slíkra aðila. Ég tel reyndar að vísir að slíku komi fram í þeirri stefnumörkum, sem fólst í þeirri byggðaáætlun sem var samþykkt, en ekki er vafi á því að framganga einstakra lánastofnana hefur iðulega skarast nokkuð og menn hafa ekki tekið mið af því í sínum ranni hvað væri að gerast annars staðar.
    Á hinn bóginn er líka vitað að samstarf hefur iðulega í einstökum efnum verið gott á milli einstakra lánastofnana, bæði ríkisbanka og sjóða, og Byggðastofnunar þegar menn hafa verið að takast á við ýmis afmörkuð verkefni og hefur slíkt samstarf þá gefið góða raun. Því er full ástæða til að taka undir með

hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni að þessa þætti þyrfti að efla og sú hugmynd sem hann nefndi hlýtur að koma til álita að hópur manna setti saman tillögur sem gætu stuðlað að því að samskipti af því tagi sem hann ræddi um yrðu markvissari og greinilegri.
    Hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, ræddi um það að hann teldi að til álita kæmi að huga að breytingum á uppbyggingu Byggðastofnunar og ekki bara uppbyggingu stofnunarinnar heldur jafnframt þá breytingu á stjórnarfyrirkomulagi og varpaði fram nokkrum hugmyndum í því sambandi sem yrði gjörbreyting frá því sem nú er. Ef ég skildi hv. þm. rétt gat hann hugsað sér að stjórnarþætti þessarar stofnunar yrði skipt upp og meira yrði um svæðisbundna stjórnun en nú er og í annan stað kæmu aðilar vinnumarkaðarins inn í stjórn Byggðastofnunar. Þetta yrði heilmikil breyting og ég tel að slíka breytingu þyrftu menn að ræða mjög nákvæmlega áður en til hennar yrði gengið þannig að menn yrðu sannfærðir um að hún væri örugglega til bóta.
    Jafnframt hafði hv. þm. hugmyndir uppi um að breyta stofnuninni í meiri alhliða atvinnumálastofnun landsins, ef ég skildi hv. þm. rétt, sem næði þá til atvinnumála í landinu öllu, bæði í Reykjavík og á Reykjanesi ekki síður en annars staðar á landinu. Þetta eru líka róttækar hugmyndir sem þarna er varpað fram sem þingmenn hljóta þá að skoða.
    Ég vek athygli á því að lögum um Byggðastofnun var breytt í lok síðasta kjörtímabils og við höfum starfað í anda þeirra laga. Ég kom hvergi að þeim breytingum. Það var áður en ég tók sæti á þinginu og ég hygg að ekki síst Framsfl. hafi haft heilmikið um þær breytingar að segja. Menn hafa verið að vinna töluvert í framhaldi af þeirri breyttu skipan í samræmi við þann lagaramma sem þá var settur og í samræmi við reglugerð sem sett var með stoð í þeim lögum. Sú reglugerð hefur ekki að mínu viti auðvitað á nokkurn hátt gengið út fyrir þann ramma sem lögin mörkuðu eða gengið á svig við þá stefnumörkun sem í lögunum fólst.
    Aðrir þingmenn voru kannski með hugmyndir um breytingar á stofnuninni í aðra átt eins og hv. 15. þm. Reykv. sem velti fyrir sér spurningunni og taldi nauðsyn á að ræða hana í þaula hvort þörf væri fyrir Byggðastofnun í nútímaþjóðfélagi. Þetta er aftur mjög róttæk hugmynd í hina áttina sem þarna er rædd miðað við það sem hv. 1. þm. Austurl. var að ræða. Hugmynd hv. 15. þm. Reykv. gekk í þá veru að með því að menn stofnuðu til öflugs atvinnumálaráðuneytis væri hægt að sinna þörfum Byggðastofnunar og sjónarmiðum hennar innan vébanda þess og það kynni að verða skilvirkara með þeim hætti.
    Fyrir mitt leyti tel ég að Byggðastofnun sé nauðsynleg stofnun. Hins vegar er ekki hægt að útiloka að hennar markmiðum megi ná með einhverjum öðrum hætti. Auðvitað hljóta menn að skoða slíka hluti. Ég held að það sé hárrétt sem hv. 1. þm. Austurl. sagði að þrátt fyrir ýmis orð er það oft svo að flest þau lönd sem við erum í mestum samskiptum og jafnvel í samkeppni við veita opinberum aðgerðum í þágu dreifðari byggða og gera það jafnvel í ríkari mæli en við höfum gert. Út af fyrir sig óhjákvæmilegt fyrir okkur að skapa þau skilyrði að við séum með okkar fyrirtæki í hinum dreifðu byggðum og svigrúm þeirra íbúa sem þar heyja lífsbaráttuna sé ekki lakara en það sem gerist annars staðar í samkeppnisveröldinni í kringum okkur. Því tek ég saman orð hv. 1. þm. Austurl. og hv. 15. þm. Reykv. að það sýnir að heilmikil gerjun er í umræðunni um byggðamál og Byggðastofnun og bersýnilega hugmyndir uppi sem ganga mjög í gagnstæðar áttir en mér finnst að það þurfi ekki að vera til marks um neitt neikvætt nema síður sé. Full ástæða er til að taka allar þessar hugmyndir til rækilegrar íhugunar og skoðunar ef niðurstaðan yrði sú að menn mundu finna betri farveg fyrir þau markmið sem Byggðastofnun á að uppfylla en menn hafa fundið nú.
    Hv. 3. þm. Norðurl. v. talaði um að ríkisstjórnin væri að kyrkja Byggðastofnun, gjörbreyting hefði orðið í þeim efnum og ræddi í því sambandi um framlög til Byggðastofnunar. Menn þurfa ekki annað en að líta á skýrslu þá sem hér er til umræðu á bls. 12, hygg ég, þar kemur glöggt fram að þar hefur engin meginbreyting orðið. Reyndar er það svo að langstærsta framlagið til Byggðastofnunar var greitt út í tíð þessarar ríkisstjórnar.
    Á hinn bóginn er það þannig að lánastarfsemin hefur kannski um of lent í áhættusömum lánveitingum þannig að afskriftir stofnunarinnar hafa verið gríðarlega miklar þó menn séu að komast fyrir vind í þeim efnum nú loks með afmarkaðri og sterkari ramma um þá stofnun en áður var. Ef þessar miklu afskriftir hefðu ekki átt sér stað væri fjárhagsgeta og lánsgeta þessarar stofnunar auðvitað miklu rýmri en ella hefði verið en það er ekki að sakast við það að framlög hafi í tíð núv. ríkisstjórnar dregist saman. Hins vegar er stofnunin komin nú á betra ról. Allur hennar fjárhagur er gegnsærri en áður var og ríkari kröfur gerðar til lána en áður var og miklu minni líkur á því að lán tapist nú en áður var. Þannig að það er búið að styrkja fjárhagsstöðu þessarar stofnunar til frambúðar en áður var hann orðinn mjög veikur. Ég hygg að allir þingmenn hljóti að fagna þeim breytingum.
    Hv. 15. þm. Reykv. sagði að hann vildi gjarnan að Byggðastofnun þróaðist í þá átt að vera fyrst og fremst ráðgefandi aðili og ég vil vekja athygli á því og vakti reyndar athygli á því í inngangsorðum mínum fyrr í dag að ráðgjafarþátturinn hefur vaxið og vaxið verulega og orðið mun skilvirkari. Að því leyti til hefur þetta gengið í þá átt sem hv. þm. nefndi.
    Hv. þm. vakti athygli á því að því hefði verið lýst yfir að áhugi væri á því að færa Byggðastofnun út á land, til Akureyrar. Menn þekkja þá sögu að stofnunin sjálf var á hinn bóginn því mjög andsnúin. En það hefur þó gerst og það er fagnaðarefni að þannig hefur skipan stofnunarinnar breyst að nú eru

10 störf af 32 á landsbyggðinni og 22 í Reykjavík en áður voru 35 störf hjá stofnuninni og ekkert úti á landi.
    Ég segi alveg eins og er að ég tel að það megi ná þessum markmiðum með þessum hætti. Það er ekki endilega sjálfgefið ef stofnun flyst á tiltekinn stað á landinu að aðstæður annarra landshluta hafi batnað til þess að njóta þeirrar þjónustu. En þessi aðferð sem Byggðastofnun og stjórn hennar hefur beitt hefur hins vegar greitt fyrir því að aðgengi að þjónustu Byggðastofnunar verði betra og sá þáttur sem hv. þm. vakti athygli á, ráðgjafarþátturinn, verður auðvitað virkari og aðgengilegri þegar Byggðastofnun er farin að teygja anga sína með föstum hætti eins og hér er gert, hún er komin með fasta starfsmenn og fast aðsetur úti um land. Þetta tel ég að sé mjög til bóta.
    Hv. þm. vitnaði í það að Bandaríkjamenn hefðu skapað í tíð Clintons 1.400 þús. störf. Ég skal ekki draga þetta í efa en ég hlustaði reyndar á Clinton í gær á CNN og hann sagði að þetta væru 5 milljónir starfa. ( KÁ: Þá hefur mikið gerst síðan ég var þar.) Þannig að það hefur heilmikið gerst síðan hv. þm. hitti þessa konu en Bill Clinton taldi að hann væri búinn að skapa 5 milljónir starfa og það væri það sama og við værum að skapa 5.000 störf. En þegar menn eru að skapa 5.000 störf þá er það ekki þannig að það séu einhverjar stofnanir eða nefndir sem ungi þessum störfum út. Í Bandaríkjunum, rétt eins og hér, gerist það að bætt efnahagsskilyrði, bættur jarðvegur fyrir atvinnulífið, leggur grundvöll að slíkum störfum. Atvinnuleysi hér á landi hefur minnkað, staðið í stað eða minnkað og það þýðir miðað við fjölgun fólks á atvinnualdri að hér hafa verið sköpuð fleiri en 1.400 þús. störf miðað við höfðatölu sem mundi vera 1.400 störf hér. Þannig að mönnum hefur gengið betur en embættismenn Clintons gáfu hv. þm. í skyn ef þetta er allt skoðað í samhengi.
    Varðandi þá spurningu sem hv. 2. þm. Austurl. spurði, hann hefur horfið á braut, en eins og hann nefndi þá er hann með fyrirspurn til mín --- þar kemur hann reyndar --- en ég fæ þá tækifæri til að svara þeirri fsp. sem hv. þm. varpaði sérstaklega fram. En ég vil þó segja það almennt í þeim efnum að ég tel að þær ákvarðanir sem menn hafa tekið um það að efla stuðning við tiltekin afmörkuð vaxtarsvæði falli mjög vel að þeim hugmyndum að Byggðastofnun líti sérstaklega á og styrki fámenn sveitarfélög sem hafa sameinast. Það gefur tilefni til þess að þau svæði verði í eðli sínu vaxtarsvæði. Þannig að ég tel að það falli vel að þeim hugmyndum sem Alþingi samþykkti og stjórn Byggðastofnunar samþykkti þó ekki væri gengið þar jafnlangt og ég hefði kosið á sínum tíma þegar ég skrifaði bréf til þessara aðila. En við hv. þm. fáum tækifæri til þess að ræða þetta atriði sérstaklega þegar fyrirspurn hans kemur á dagskrá sem ég vona að verði innan tíðar.
    Að öðru leyti, hæstv. forseti, þá tel ég að þessar umræður, tíma mínum er nú lokið eða því sem næst, hafa verið mjög gagnlegar og ég tel að hér hafi komið fram mörg athyglisverð sjónarmið um það með hvaða hætti menn eigi að horfa til þessa málaflokks í framtíðinni og það sé athyglisvert, ekki síst með hliðsjón af því að ekki eru nema mjög fá ár síðan lög um þessa merku stofnun voru endurskoðuð.