Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1993

32. fundur
Fimmtudaginn 10. nóvember 1994, kl. 16:59:33 (1464)


[16:59]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var bara vegna þess að hv. þm. spurði og gat þess að ég hefði haft góð orð um það að breyta reglugerð um heimildir Byggðastofnunar til að kaupa hlutabréf. Síðan hafði hann það eftir hv. 1. þm. Vestf. að það hefði ekki verið gert. Þetta var gert í vor. Ég skrifaði sjálfur undir reglugerðina og breytti textanum sjálfur í samráði við hv. 1. þm. Vestf. og hann var afskaplega ánægður með þá breytingu. Það kemur mér á óvart ef hann hefur núna fyrir skömmu sagt við hv. þm. að þessi breyting hafi ekki verið gerð. Ég hringdi í millitíðinni í forstjóra Byggðastofnunar til að vita hvaða misskilningur gæti verið uppi og það var forstjóranum alveg óskiljanlegt því að honum var jafnkunnugt um það og mér að þessi breyting var gerð. Ég gerði hana sjálfur og í samráði við hv. 1. þm. Vestf.