Breytingar á ríkisstjórninni

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 13:49:15 (1478)


[13:49]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er rétt sem fram kemur í máli hv. 1. þm. Austurl. að það hefur ekki verið venja nema þá e.t.v. í undantekningartilvikum að sérstök grein hafi verið gerð fyrir því á Alþingi þegar breytingar hafa orðið á ríkisstjórn og reyndar ekki heldur þegar nýjar ríkisstjórnir hafa tekið við og engin sérstök staðfesting farið fram á því hvort þær njóta meirihlutastuðnings á Alþingi eða ekki. Það hefur einfaldlega komið fram í störfum þingsins.
    Sl. laugardag urðu breytingar á núv. ríkisstjórn og mér er ljúft að staðfesta að þeir flokkar sem staðið hafa að ríkisstjórninni, Sjálfstfl. og Alþfl., standa áfram að þessari ríkisstjórn. Hún nýtur því enn stuðnings meiri hluta Alþingis. Á því hafa engar breytingar orðið. Hún fylgir enn sömu stefnu og hún hefur fylgt. Þar á hafa engar breytingar orðið. Hv. þingmenn geta því vænst þess að þingstörf gangi fyrir sig þrátt fyrir þessar breytingar með venjulegum hætti og geta gengið til starfa hér svo sem venja stendur til. Þar á verða engar breytingar.