Endurskoðun á launakerfi ríkisins

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 14:50:47 (1492)


[14:50]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð sérstakt þegar mál raðast þannig á dagskrá að sami flm. fer í ræðustólinn aftur og aftur en ég er þó fegin að komast loksins að með mín mál sem eru með mjög lág númer og komu fram á fyrstu dögum þingsins. Ég er auðvitað fegin því að þau komist loksins til nefndar og til umsagnar.
    Sú tillaga sem ég ætla að mæla fyrir er till. til þál. um endurskoðun á launakerfi ríkisins. Flm. ásamt mér eru Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún J. Halldórsdóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og Kristín Einarsdóttir.
    Tillögugreinin er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða launakerfi ríkisins. Hlutverk nefndarinnar verði að einfalda launakerfi ríkisins, auka hlut umsaminna grunnlauna, draga úr eða afnema með öllu yfirborganir og aukagreiðslur af ýmsu tagi og endurskoða röðun í launaflokka. Sérstaklega ber nefndinni að benda á leiðir til að hækka lægstu laun og draga úr launamun kynjanna. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar fjármálaráðuneytisins og samtaka opinberra starfsmanna.``
    Í grg. segir, með leyfi forseta:
    ,,Tillaga þessi var flutt á 117. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu.
    Samskipti ríkis við starfsmenn sína hafa vægast sagt verið með sérkennilegum hætti undanfarin ár. Grunnlaunum hefur markvisst verið haldið niðri þannig að lægstu laun ríkisstarfsmanna eru á sultarmörkum meðan hvers kyns yfirborganir og sérgreiðslur hafa aukist til ákveðinna hópa. Samskipti ríkisins og háskólamenntaðra starfsmanna þess hafa verið afar slæm enda bráðabirgðalögum beitt til þess að taka til baka umsamdar launahækkanir. Eins og kunnugt er reyndist sú lagasetning lögleysa og hefur þegar kostað ríkissjóð um 400 millj. kr. Þegar Kjaradómur kvað upp úrskurð sumarið 1992, þar sem reynt var að taka á margföldu og óréttlátu launakerfi ríkisins, brást ríkisstjórnin enn við með bráðabirgðalögum í kjölfar mótmæla úti í þjóðfélaginu.
    Á undanförnum árum hefur fjöldi mála verið rekinn fyrir dómstólum vegna samskipta ríkisstarfsmanna við vinnuveitanda sinn sem gefur til kynna að mikið er að launakerfi ríkisins og samskiptum við ríkisstarfsmenn. Þá má nefna það fjaðrafok sem varð sl. haust vegna launamála bankastjóra ríkisbankanna sem ekki eru í neinu samhengi við það sem tíðkast í öðrum ríkisstofnunum. Í því sambandi má minna á þá yfirlýsingu iðnaðarráðherra að launakerfi ríkisins sé handónýtt. Undir þá lýsingu tökum við kvennalistakonur, enda höfum við margoft bent á þá staðreynd. Enn má bæta við þessa lýsingu á launakerfinu því launamisrétti milli karla og kvenna sem tíðkast hjá ríkinu og á meðal annars rætur að rekja til úrelts starfsmats og forréttinda sem karlar njóta.
    Það er löngu tímabært að hefja endurskoðun á launakerfi ríkisins með þau markmið í huga að draga úr launamisrétti, hækka lægstu laun, einfalda kerfið og gera það gagnsærra þannig að ljóst sé hver launakjörin eru í raun og veru.
    Margt þarf að endurbæta í ríkiskerfinu, svo sem í mennta- og heilbrigðisgeiranum, þannig að rekstur ríkisins verði sem hagkvæmastur og þjóni landsmönnum sem best. Árangur næst ekki nema ríkisstarfsmenn séu sáttir við sinn hlut og séu hafðir með í ráðum. Það gengur ekki lengur að ríkisvaldið standi í eilífum styrjöldum við starfsmenn sína og beiti lögum og dómstólum gegn þeim ef það kallar ekki sjálft yfir sig málaferli. Besta leiðin til að bæta samskiptin er að ganga í það nauðsynjaverk að stokka upp launakerfi ríkisins í góðri sátt við ríkisstarfsmenn. Kjarasamningar eru nú á næsta leiti. Áður en til þeirra verður gengið ber að marka stefnu sem felur í sér réttlátara og raunhæfara launakerfi.``
    Virðulegi forseti. Frv. fylgja fylgiskjöl sem sýna þann launamun sem er að finna hjá ríkinu og ekki síst það hverjir það eru sem fá hæstu launin, en það eru karlar hjá hinu opinbera í svo miklum meiri hluta að það er næstum því hægt að telja konurnar á fingrum sér. Þar við bætist að þróun launamála hér á landi hefur verið í þá veru að undanförnu að mismunur milli launa kvenna og karla er að aukast. Í nýlegum bæklingi sem Hagstofan gaf út í sumar kemur þetta berlega í ljós þar sem ákveðnar stéttir eru skoðaðar. Þar er reyndar ekki um að ræða ríkisstarfsmenn heldur starfsfólk á hinum almenna vinnumarkaði og þar er alls staðar sama sagan þegar hlutur kvenna er skoðaður. Launabilið milli karla og kvenna hefur vaxið hvort sem um er að ræða verkakonur, afgreiðslukonur eða skrifstofukonur sem eru þeir hópar sem kjararannsóknarnefnd skoðar fyrst og fremst.
    Ég hef ekki séð slíkar tölur yfir starfsmenn ríkisins en þó kom fram þegar fulltrúar Háskóla Íslands heimsóttu menntmn. í síðustu viku að þegar menn skoða þróunina innan háskólans þá hefur niðurskurðurinn til háskólans bitnað meira á konum en körlum. Hann hefur bitnað í ríkari mæli á konum en körlum. Við vitum það að þar sem konur eru í meiri hluta, t.d. sem kennarar í skólakerfinu, hefur yfirvinna verið skorin niður og við höfum á undanförnum mánuðum og reyndar árum orðið vitni að mjög mikilli óánægju meðal kvennastétta hjá ríkinu. Þar er skemmst að minnast deilna hjúkrunarfræðinga við ríkið, meinatækna og nú síðast það sem við horfum upp á einmitt þessa dagana, verkfall sjúkraliða. Þessi átök milli þessara kvennastétta og ríkisins endurspegla mikla óánægju og þau lágu laun sem þessum sérmenntuðu kvennastéttum er boðið upp á.
    Þá er ekki síst að nefna það sem komið var inn á í greinargerðinni, þessi eilífu dómsmál milli ríkisins og starfsmanna þess sem kosta stéttarfélögin stórfé og reyndar ríkissjóð einnig því sá dómur sem endanlega féll í deilu BHMR og ríkisins kostaði stórfé í dráttarvöxtum. Sú pólitík sem hér hefur verið rekin um árabil, ekkert síður hjá síðustu ríkisstjórn en hjá þeirri sem nú situr, þar sem kjaradeilur milli starfsmanna ríkisins og ríkisvaldsins eru látnar fara í hart hvað eftir annað, það er ekki rætt við fólk svo mánuðum skiptir, ekkert reynt að leita leiða til lausnar á þessum deilum, gengur auðvitað ekki. Þetta skaðar ekki aðeins stofnanir ríkisins heldur allt samfélagið. Það er verið að skaða allt samfélagið. Ég get nefnt það sem dæmi að ég efast um að bráðabirgðalögin á félaga BHMR og það ástand sem fylgdi í kjölfarið hafi jafnað sig enn þá í skólakerfinu. Allt það mál hafði gríðarlega skaðlegar afleiðingar á framhaldsskólana í landinu. Í fyrra komu fulltrúar skólameistara á fund menntmn. og lýstu því yfir að allt þróunarstarf í framhaldsskólum væri búið að vera stopp um árabil vegna þess að fólk einfaldlega leggur það ekki á sig að gera eitthvað fyrir vinnuveitanda eða vera að þróa áfram störf og stofnanir þegar framkoman er með þessum hætti. Þær vinnuaðferðir sem hér tíðkast í samskiptum ríkisins og starfsmanna þess eru algjör óhæfa.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, vitna aðeins í stjórnmálaályktun Kvennalistans sem samþykkt var á nýafstöðnum landsfundi þar sem við lýsum því yfir að atvinnumál og kjör kvenna í víðasta skilningi en þó ekki síst launamál kvenna séu þau mál sem við ætlum m.a. að beita okkur sérstaklega fyrir í kosningabaráttunni og á komandi kjörtímabili. Í þessari ályktun segir, með leyfi forseta:
    ,,Stefna stjórnvalda á undanförnum árum hefur leitt til þess að lífskjör almennings hafa versnað verulega hér á landi. Sköttum hefur verið velt yfir á launafólk, tekjur hafa dregist saman, atvinnuleysi hefur aukist verulega og launamisrétti vaxið.
    Samkvæmt upplýsingum frá félagsmálastofnunum víða um land er nú svo komið að fullvinnandi

fólk getur ekki séð sér og fjölskyldum sínum farborða og leitar í vaxandi mæli eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaga vegna þess að laun duga ekki til framfærslu. Fátækt er að verða hlutskipti sífellt fleiri vinnandi Íslendinga.
    Á þessu yfirlýsta ári fjölskyldunnar vaxa skuldir heimilanna dag frá degi og félagsleg vandamál fylgja í kjölfarið. Kvennalistinn telur það vera forgangsverkefni næstu ríkisstjórnar að snúa þessari þróun við. Atvinnuleysi er meira í röðum kvenna en karla en samt hafa aðgerðir stjórnvalda til þess að draga úr atvinnuleysi fyrst og fremst miðast við karla. Minni félagsleg aðstoð við barnafjölskyldur og niðurskurður í heilbrigðiskerfinu bitna fremur á konum en körlum. Það eru fyrst og fremst konur sinna börnum, öldruðum og sjúkum. Laun kvenna eru þó ekki í neinu samræmi við þá ábyrgð sem þær bera. Launamismunur kynjanna hefur vaxið á undanförnum árum og er orðinn algerlega óþolandi.``
    Þetta kemur fram í stjórnmálaályktun landsfundar Kvennalistans og er auðvitað það sem segja þarf í umræðunni. Það verður að taka á þessum launamálum. Fleiri en hæstv. núv. heilbr.-, iðnrh. og viðskrh. hafa lýst því yfir að launakerfi ríkisins sé orðið handónýtt. Við höfum séð að vissir hópar í þjóðfélaginu geta skammtað sér laun að vild, þar á meðal hópar ríkisstarfsmanna, meðan öðrum er haldið á skammarlega lágum launum. Þetta er óþolandi misrétti. Þetta dregur úr jöfnuði í samfélaginu og þessu þarf að linna. Það þarf að snúa við blaðinu.
    Að lokinni umræðunni, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. efh.- og viðskn.