Endurskoðun á launakerfi ríkisins

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:02:15 (1493)


[15:02]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja og samt aldrei of oft sagt, að tvær stéttir eru að myndast í landinu. Stétt fólks sem hefur vel í sig og á og langt þar fram yfir, sem að ýmsu leyti getur skammtað sér launin sjálft og svo þeir sem þiggja laun eftir launakerfum verkalýðsfélaganna og opinberra starfsmanna. Í þessum tveimur hópum eru að skapast stéttir sem eru svo illa launaðar að það er nánast kinnroðaefni að bjóða fólkinu laun þegar maður er að ráða það í vinnu. Ungt fólk, sem kemur út á vinnumarkaðinn og ætlar að sækja um vinnu til okkar sem höfum haft með slíkar ráðningar að gera, horfir á okkur í forundran þegar maður nefnir þá tölu sem það á að fá í kaup á mánuði. Þetta er sannast sagna. Og það bara spyr: Hvernig á ég að lifa af þessu? Þetta unga fólk er þó yfirleitt ekki fólk sem á fyrir börnum að sjá heldur bara sjálfu sér. En það segir sína sögu að jafnvel einhleypt ungmenni sem býr heima hjá sér verður undrun slegið þegar maður nefnir þá tölu sem byrjunarlaunin eru í hinum opinbera geira. Þetta er mál sem við verðum að gera okkur grein fyrir og auðvitað eru sömu aðstæður innan þeirra hópa sem þiggja laun samkvæmt lægri töxtum ASÍ, það ástand er ekki betra heldur kannski stundum sýnu verra. Ég vil leyfa mér að halda því fram að ef launakerfi ríkisins verður ekki endurskoðað, sem væri þá bara byrjun á endurskoðun annarra launakerfa, þá horfir mjög illa fyrir íslenskri þjóð, þá horfir illa fyrir íslenskum heimilum, þá horfir illa fyrir framtíð þjóðarinnar í heild. Við verðum að endurskoða þetta launakerfi, bæði launakerfi ríkisins og annarra sem því miður virðast ekki enn þá hafa fundið hjá sér hvatir til þess að greiða svo að mannsæmandi sé.
    Ég lít svo á að vinnuveitandanum, hvort sem það er ríki, borg eða almennur vinnuveitandi, beri siðferðileg skylda til að greiða laun sem fólk getur lifað af. Honum ber meira en siðferðileg skylda til þess, honum ber líka skynsemdarleg skylda til þess. Það er óskynsamlegt að borga stórum hluta þjóðarinnar kaup sem er undir þeim mörkum að hægt sé að lifa af því og býður heim alls lags tilraunum til að bjarga sér á einhvern annan hátt. Þá á ég ekki við að stela heldur alla samhjálp sem ríkið vill nú fara að skattleggja líka. Það er ein af þeim aðgerðum sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að grípa til núna að fara að skattleggja þá samhjálp sem hefur verið iðkuð um árahundruð á Íslandi, en einmitt hún hefur kannski getað hjálpað sumu af þessu fólki til þess að tóra og undir þann leka á náttúrlega að setja. Allt ber þetta að sama brunni. Við verðum, ef við ætlum að lifa í þessu landi eins og fólk með nokkra reisn og með lífsskilyrði sem eru lík því sem gengur og gerist í kringum okkur, að endurskoða launakerfið og aðstæður hjá þeim sem verr eru launaðir. Lægstu laun eru mönnum ekki bjóðandi og það verður að breyta þessu. Þess vegna held ég að þessi þáltill. sé mjög nauðsynleg og ég held að það geti ekki verið að það sé nokkur þingmaður á þessu þingi sem gerir sér ekki grein fyrir að það þarf að laga þetta.