Þingsköp Alþingis

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:16:37 (1495)


[15:16]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem eru flytjendur þessa frv. fyrir að hafa leitt hugann að þeim málum sem hér eru í formi frv.
    Fyrsti flm., hv. þm. Tómas Ingi Olrich, hefur gert í ágætri ræðu glögga grein fyrir þeirri hugsun sem að baki býr og gert grein fyrir því með hvaða hætti hann telur að gera eigi breytingar á þingskapalögunum og setja upp sérstaka nefnd sem ætti að fjalla um þau.
    Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að mér hefur ekki gefist tóm til þess að fara rækilega yfir þetta frv. en vonandi gefst gott tækifæri til þess í þinginu. Sú hugsun læðist að mér við það að hafa hlustað á rökstuðning hv. þm. fyrir þessu frv. að hér sé í rauninni verið að setja á stofn yfirforsætisnefnd. Ég spyr hvaða afleiðingar það getur haft. Er það æskilegt að hér geti upphafist umræður um það þegar þingmenn verða óánægðir með stjórn forseta að fundarstjórn og úrskurði starfandi forseta skuli skotið til þessarar yfirforsætisnefndar sem hér er verið að leggja til að verði sett á stofn? Ég vil spyrja þeirrar spurningar hvort það sé ekki viss hætta á því að þetta flæki málið. En það er bara þannig að sérstaklega við stjórn funda, það þekki ég af langri reynslu í félagsmálum, þá getur ekki verið nema einn skipstjóri á skútunni.
    Það er afskaplega óheppilegt að þar séu margir við stjórn og nauðsynlegt að forseti geti með fullum rétti og af fullu afli, ef svo mætti segja, tekið sínar ákvarðanir en auðvitað er það á ábyrgð forseta hverju sinni og eftir atvikum til umfjöllunar í forsætisnefnd.
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki leggjast alfarið gegn þessu frv., ég vil að það verði skoðað mjög vandlega en ég vek athygli á þessu sem ég nefni hér hvort það geti skapast sú hætta að hér verði litið á að það yrði komin til yfirforsætisnefnd og forsetar yrðu að vinna í skjóli hennar.
    En ég tel eðlilegt að þetta frv. sé skoðað rækilega í nefnd og fái góða og málefnalega umfjöllun í þinginu.