Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:37:29 (1499)


[15:37]
     Flm. (Guðni Ágústsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigbirni Gunnarssyni fyrir það að hafa staðfest að Alþfl. er þó ekki einhuga á bak við fjárlagafrv. Það er nú svo með Alþfl. að mér sýnist að í því litla húsi búi tvær hendur, þ.e. sá kjarni sem byggist á þessum gamla gróna Alþýðuflokki sem var til áður en ég fæddist og hinum sem virðist vera últra hægri flokkur. En ég vona að það verði gamli, góði Alþfl. sem verður ofan á í átökunum um fjárlagafrv. og mun styðja hv. þm. heils hugar í viðleitni hans.
    Ég þekki þau rök sem hann fór yfir í sambandi við það frv. sem hér er til umræðu. Það var talið að það drægi úr atvinnuþátttöku kvenna. Ég vona að það verði jafnrétti á Íslandi á öllum sviðum og að þetta frv. kalli ekkert frekar á að það verði kvenfólk sem fer út af vinnumarkaðinum. Kannski snýr þetta frv. að því miklu frekar að við rýmum fyrir konum á vinnumarkaði eins og staðan er í dag ef þetta frv. yrði að lögum eða í mínum huga ( Gripið fram í: . . .   bjartsýni.) Það er gott að vera bjartsýnn og í mínum huga snýr það að því. En ég skil hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson að það sé mikilvægt, þegar þessi ríkisstjórn fer frá að taka þá upp mikla vinnu við að koma upp réttlátum skattalögum. Við sáum það síðast fyrir helgina þegar það var aðalamál hæstv. fjmrh. að ætla að fara að setja ranglátan skatt á börnin sem bera út blöðin.