Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:47:54 (1503)


[15:47]
     Flm. (Guðni Ágústsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það var eðlilegt hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að spyrja hvað málið kostar. Ég rakti það í ræðu minni að það kostaði 600 millj. En við vorum líka svo ábyrgir að svara því hvernig við vildum að ríkið héldi í tekjur á móti og gott betur en það. Kannski svarar hv. þm. því hvort hann vill viðhalda þeim hátekju- og eignarskatti sem stendur til að fella niður í fjárlagafrv. upp á 1,1 milljarð.
    Síðan fer hv. þm. að eins og þeir gera hér í hatrammri lygi gegn staðreyndum sem Framsfl. lagði fram á síðasta þingi. Það hefur aldrei staðið til af hálfu Framsfl. að taka upp einn einasta matarskatt. Það hefur aldrei staðið til. Staðreyndin er sú að þær mótuðu tillögur sem Framsfl. lagði fram í fyrra sneru að því að matvælin á endurgreiðslustigi væru í því lága þrepi sem þau voru. Með endurgreiðslum inn á frumstigið þá var hér enginn matarskattur. Enginn hefur rakið það betur úr þessum stól en hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson.
    Framsfl. lagði fram mótaðar tillögur um hvernig ætti að koma til móts við barnmörgu fjölskyldurnar og ég get ekki í andsvari farið yfir allar þær leiðir en þær sneru að því að auka barnabótaauka, barnabætur. Þær sneru að því að lækka virðisaukaskattinn í heild sinni úr 24,5% niður í 22--23% og stíga þar skref til lækkunar. Framsfl. ætlar ekki að koma upp einum eða neinum matarskatti. Hann álítur það mikilvægast að fólkið í landinu eigi aðgang að ódýrum og góðum mat og við munum berjast fyrir því að þar verði ekki farin ranglát leið.