Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:51:01 (1504)


[15:51]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki get ég gert alveg grein fyrir því hvað hatrömm lygi gegn staðreyndum er, eins og hv. þm. orðaði það. En ég benti á það vegna ræðu þingmannsins og vegna fullyrðinga hans um að fyrstu aðgerðir framsóknarmanna kæmust þeir til valda yrðu í formi þess að lækka skatta að formaður Framsfl., hv. þm. Halldór Ásgrímsson, hafði svo mikið við að reyna að koma í veg fyrir breytingar á virðisaukaskatti á matvælum að hann óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun gerði sérstaka úttekt á því máli til þess að undirbyggja og undirbúa aðgerðir Framsfl. sem væntanlega munu birtast í því að matarskatturinn verði hækkaður. Allur málflutningur framsóknarmanna gekk út á það að lækkun matarskattsins væri óforsvaranleg og óeðlileg og Framsfl. vildi berjast gegn því. Þeir hljóta þess vegna að ganga til þess verks komist þeir til valda í þjóðfélaginu eins og þeir hafa undirbúið það.