Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:52:30 (1505)


[15:52]
     Flm. (Guðni Ágústsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er undarlegt með þennan hv. þm. að hann getur spurt og spurt en hann svarar engu sem hann er spurður um sjálfur. Það er ekki málefnalegt. Ein af aðalástæðum þess að Framsfl. lagði til aðrar leiðir var ekki síst gagnvart þjóðfélaginu og réttlætinu hér. Það er talið að 11--15 milljarðar séu í undirheimum í hagkerfinu sem ekki koma til skatts. Það er náttúrlega ólíðandi í okkar þjóðfélagi ef menn gata og gata tekjustofna ríkissjóðs til þess að fleiri og fleiri geti sloppið við að bera byrðar sínar og látið aðra bera þær. Það getur vel verið að Sjálfstfl. sé sérstakur flokkur skattsvikara á Alþingi og vinni í þeirra þágu. Ég ætla ekki að fullyrða það en ég trúi því vart. Þess vegna lögðum við til mjög mótaðar tillögur. Það fór fram athugun á því, hv. þm., að þær tillögur sem Framsfl. lagði fram drógu stórlega úr skattsvikum í þjóðfélaginu en skiluðu láglaunafólkinu og barnmörgu fjölskyldunum betri kjörum en sú leið sem var farin. Það er útúrsnúningur, hæstv. forseti, að tala um að Framsfl. hafi verið að berjast fyrir því að leggja á matarskatt. Það var aldrei í hans tillögum því matarskatturinn var niðurgreiddur á frumstigi matvælaframleiðslunnar.