Sjóvarnir

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 16:46:56 (1513)


[16:46]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. svör hans. Það sem mig langar til að gera skýrt er það að ég tel að það sé ekki síst mikilvægt vegna þess óþarfa kostnaðar sem skapast ef of seint er gripið í taumana í sjávarvörnum að tryggja fjármagn sem er fullnægjandi. Okkur er það áreiðanlega báðum ljóst að svo hefur ekki alltaf verið og þar af leiðandi hafa viðgerðar- og neyðarframkvæmdir gleypt meira fjármagn heldur en skipuleg áætlanagerð. Slíkum áætlunum, sem ég held að sé út af fyrir sig mjög vel komið fyrir í þessu frv., þarf að fylgja fjármagn. Öðruvísi gerast hlutirnir ekki.
    Þar sem það eru eingöngu stjórnarþingmenn sem skrifa upp á þetta frv. þá trúi ég því og treysti að þeir hafi bæði fulltingi og velvild ríkisstjórnarinnar til þess að taka hraustlega til við þennan málaflokk og ekki síst út frá þeim rökum að hér er fyrst og fremst um að ræða brýnt hagsmunamál til þess að það sé farið skynsamlega og vel með það fé sem fer í þennan málaflokk. Þetta held ég að sé kannski stærsta atriðið.
    Ég vil taka undir með hv. þm. að ábyrgð sveitarstjórna, t.d. varðandi skipulag og staðsetningu byggða, verður að vera mikil og ég held að það megi taka á því með öðrum hætti heldur en bara með kostnaðarþátttöku og jafnvel að halda til haga ef eitthvað er óskýrt í reglum um skipulag.