Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 17:41:12 (1520)


[17:41]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi mínum við það mál, sem er til umræðu, og hafa um það nokkur orð. Ég vil fyrst minna á það að Kvennalistinn flutti á sínum tíma frv. mjög svipaðs eðlis, að vísu aðeins öðruvísi orðað. Ég hygg að það hafi verið 1989 á 111. löggjafarþingi sem tillaga þess efnis kom fram en hún náði því miður ekki fram að ganga. Sú tillaga miðaðist fyrst og fremst við einstæða foreldra. Í þeirri tillögugrein var tekið fram, með leyfi forseta: ,,Einstæðum foreldrum er heimilt að nýta á sama hátt ónotaðan persónuafslátt barna sinna sem eiga hjá þeim lögheimili.``
    Þarna var gengið út frá því að einstæðir foreldrar gætu nýtt þann rétt sem maki hefur í núgildandi skattalögum.
    Það er umhugsunarefni hvernig talað er um börn í báðum þessum tillögum því auðvitað er hugsunin að náð sé til unglinga á aldrinum 16--19 ára en ég held ég fari rétt með það að í skilningi skattalaga eru það börn sem eru undir 16 ára aldri. Þegar fólk verður 16 ára þá verður það skattskylt og fær persónuafslátt. Þetta skiptir ekki öllu máli. En það sem þetta mál gengur auðvitað út á er það að skattalögin taki tillit til þess að fjöldamargir foreldrar hafa þunga framfærslubyrði af börnum sínum á aldrinum 16--19 ára og þá fyrst og fremst þeim sem eru í skóla. Það er mjög mikið hagsmunamál fyrir mörg heimili að tekið sé tillit til þess. Nú væru auðvitað ýmsar leiðir í því eins og að fólk fái einfaldlega aukinn skattafslátt

út á það að hafa börn sín á framfæri en hér er auðvitað um það að ræða að t.d. einstæðir foreldrar geti nýtt sér skattafslátt barna sinna.
    Það er mjög athyglisvert sem kemur fram í grg. hvað um mikinn kostnað er að ræða. Í grg. segir, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt upplýsingum úr álagningargögnum fyrir árið 1994 vegna tekna á árinu 1993 er ónýttur skattafsláttur þeirra sem eru fæddir á árunum 1973 til 1977, að báðum árum meðtöldum, 2,5 milljarðar kr. og fjöldi þeirra er 16.704. Aðeins 30% barna 16--19 ára hafa verið úti á vinnumarkaðinum undanfarin ár.``
    Þessar tölur segja okkur að um mikla breytingu er að ræða. Auðvitað eru miklu fleiri á aldrinum 16--20 ára sem stunda skólanám og það kostar mikla peninga. En jafnframt mundi það kosta ríkissjóð mikla peninga, 2,5 milljarða kr., að veita þennan skattafslátt. Samt sem áður ef við erum að tala um þetta í því samhengi að bæta hag fjölskyldna í landinu þá held ég að hér sé um að ræða eitthvert mesta réttlætismál og eina af þeim leiðum sem hægt er að fara í gegnum skattkerfið til þess að jafna kjör fólksins í landinu. Við yrðum auðvitað að finna leiðir til þess að ná upp tekjutapinu. Ýmsar leiðir eru til þess eins og að halda inni margnefndum hátekjuskatti, koma á fjármagnstekjuskatti, jafnvel hækka hátekjuskattinn og svo maður tali nú ekki um að taka á skattsvikum í þjóðfélaginu. Það eru því ýmsar matarholurnar sem hægt er að sækja í ef vilji er til þess.
    En ég lýsi yfir stuðningi við frv. Ég tel að þetta sé mikið réttlætismál og við ættum að sameinast um það á þessum síðasta vetri þessa kjörtímabils að bæta hag sérstaklega einstæðra foreldra og þeirra sem eru að kosta börn sín í framhaldsnám að koma málinu í gegn.