Mat á umhverfisáhrifum

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 18:07:47 (1523)


[18:07]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég tel fyrst nauðsynlegt að leiðrétta þann misskilning að orðalagsbreytingin þar sem skipt er á orðunum ,,umtalsverð umhverfisáhrif`` annars vegar og ,,umtalsverða röskun og spjöll á umhverfi`` hins vegar sé breyting sem nær aðeins til 6. gr. sem er heimildargrein laganna. Aðalbreytingin er sú að þetta orðalag er tekið inn í 1. gr. laganna sem er markmiðsgreinin. Síðan er því fylgt eftir með breytingum á öðrum greinum laganna, þannig að það er misskilningur að þetta snerti aðeins 6. gr. laganna sem er heimildargrein.
    Að sjálfsögðu er hér með þessu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, verið að árétta þann skilning sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. þegar hann mælti fyrir málinu upphaflega, það er verið að árétta þann skilning sem kom fram í greinargerð með frv. og hefur aldrei verið mótmælt af neinum aðila sem um málið hefur fjallað að tilgangur laganna væri að koma í veg fyrir spjöll. Þar sem það hefur komið í ljós við framkvæmd laganna að það gætir tilhneigingar til þess hjá framkvæmdarvaldinu að yfirfæra þessi lög yfir á framkvæmdir sem ekki er hægt með nokkru móti að flokka undir spjöll á náttúrunni, sem lögum samkvæmt eiga að bæta ástandið í náttúrunni, þá verður það að teljast alveg augljóst mál að það er verið að skerpa þann skilning laganna sem upphaflega var til grundvallar lagasetningunni en alls ekki verið að breyta anda laganna. Ef það væri hins vegar svo að menn hengdu sig á þetta orðalag ,,umtalsverð áhrif á umhverfið`` í þeirri von að geta fært út valdsviðið sem framkvæmdarvaldinu er fengið með þessum hætti yfir á ýmis önnur framkvæmdaatriði sem heyra undir önnur ráðuneyti þá er að sjálfsögðu verið að gera allt annað með þessum lögum. Þá er verið að búa til valdatogstreitu milli aðila, milli framkvæmdarvaldsins, einstakra handhafa framkvæmdarvaldsins, og það er verið að gera lagasetninguna að þessu leyti að uppsprettu tortryggni og vandræða. Ef hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson vill tryggja það að með lögum um landgræðslu sé ekki farið út á þær brautir að valda óæskilegum áhrifum á gróðurfari landsins með landgræðsluframkvæmdum þá er eðlilegra að hún miði við að taka á því máli í lögunum um Landgræðslu ríkisins. Það er ekki meiningin að með lögunum um mat á umhverfisáhrifum sé búið til einhvers konar yfirstjórnvald sem tekur að sér verkefni annarra ráðuneyta. Það er afar mikilsvert að menn fái skilning á þeim vanda sem hér er verið að ræða um.
    Það kom fram í máli hv. þm., síðasta ræðumanns, Önnu Ólafsdóttur Björnsson, að landgræðsluframkvæmdir gætu valdið verulegri röskun á náttúrlegu gróðurlendi. Ég býst við því að við hv. þm. getum verið sammála um það að ef við lítum yfir gróðurlendi Íslands eins og það er í dag þá er tiltölulega lítið um það sem við getum kallað náttúrulegt gróðurlendi. Gróðurlendi á Íslandi í dag er afleiðing af aldalangri ofnýtingu á gróðurlendinu, af mikilli áþján á gróðurlendinu og mikilli breytingu. Það fer ekkert milli mála að gróðurlendi á Íslandi hefur stórlega rýrnað á umliðnum öldum og það er einmitt gegn þeim vanda sem við erum nú að bregðast, hv. þm., með landgræðslu og skógrækt.
    Víðáttumikil gróðurlendi hafa gjörbreytt um svip vegna þess að skóglendi hafa horfið og sú vernd sem gróðri landsins stendur af skóginum er horfin. Þar með hefur jarðvegurinn og gróðurlendi rýrnað. Það er hægt að fá fjölmargar álitsgerðir um það hjá þar til gerðum stofnunum, t.d. hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, að víðáttumikil gróðurlendi eru afleiðing þessarar gróðurrýrnunar. Eigum við þá, hv. þm., með lögunum um mat á umhverfisáhrifum að standa sérstakan vörð um rýrnandi gróðurlendi á Íslandi? Eigum við þá, hv. þm., að leggja okkur í framkróka um það að standa vörð um eyðingu jarðvegs og gróðurs? Er það markmiðið með þessu orðalagi sem hér er verið að leggja til að verði varðveitt í lögunum? Að sjálfsögðu getum við ekki gengið fram í slíkri náttúruvernd. Ef það er eitthvað sem er samnefni þá er það að kalla náttúruvernd sem setur sér það markmið fyrst og fremst að standa vörð um landeyðingu, svarta náttúruvernd. Ég hef enga trú á því að hv. þm. sem ég ber fullt traust til vilji standa vörð, m.a. með tilstilli laganna um mat á umhverfisáhrifum, um rýrnandi gróður og landeyðingu á Íslandi.
    Við höfum gengið svo langt í rýrnandi landgæðum, af illri nauðsyn að sjálfsögðu og enginn ásakar liðnar kynslóðir Íslendinga fyrir það, að við þurfum að grípa til miklu víðtækari ráðstafana heldur en aðrar þjóðir verða að gera. Sú landeyðing sem hér hefur átt sér stað á Íslandi er langt umfram það sem þekkist í Evrópu, nema ef segja mætti að löndin sem liggja að Miðjarðarhafinu, hafi kynnst álíka gróðureyðingu. Það er t.d. mjög líklegt að gróðureyðing á Grikklandi hafi að sumu leyti gengið eins langt og í einstak tilfellum lengra en gróðureyðingin hér á Íslandi vegna ofnýtingar. Það á einnig við um Ítalíu og hluta af Suður-Frakklandi og Spáni. Það gróðurlendi sem þar er nú, t.d. makkíkjarrið, er afleiðing rýrnandi gróðurfars og ofnýtingar. Við þurfum að gera ráð fyrir því að til þess að efla gróðurlendi Íslands þurfi mikið átak. Við þurfum að sjálfsögðu að fara okkur gætilega í því. Við þurfum að gera ráð fyrir því að stofnanir okkar, sem annast þessi verkefni, vinni þau samviskusamlega og með fullri virðingu fyrir náttúrunni. En við getum ekki lagt til grundvallar virðingu fyrir gróðureyðingunni og rýrnandi gæðum þessa lands. Við verðum einnig að gefa okkur svigrúm, hv. þm., ekki aðeins að því er varðar eflingu gróðurlendisins heldur líka aukna fjölbreytni gróðurlendisins. Við vitum það að hér óx fyrir síðustu ísöld fjölbreytilegur gróður sem síðan dó út. Við getum nú endurvakið hluta af þessu fjölbreytilega gróðurlendi. Við getum það með því að flytja inn tegundir sem henta nú við þau veðurfarsskilyrði sem hér ríkja en hafa hins vegar ekki numið hér land vegna landfræðilegrar einangrunar. Eigum við þá í þeirri viðleitni okkar að standa vörð um íslenskt gróðurríki að neita okkur um þessa möguleika, að standa vörð um einangrun landsins í sjálfu sér, að standa vörð um þá eyðileggingu sem átti sér stað á ísöld? Í sjálfu sér er þetta ekki markmið og ég trúi því ekki að menn vilji ekki með opnum huga stunda hér uppgræðslu með innfluttum tegundum sem reynast vel.
    Að sjálfsögðu er það svo og ég legg áherslu á það í máli mínu að þegar menn setja af stað viljandi gróðurbreytingar eins og þær sem felast í landgræðslu og skógrækt þá eru menn að setja af stað þróunarferil sem hefur í raun og veru kannski engan enda. En líka má segja að ef við friðum land þá séum við að setja í gang ferli sem við sjáum ekki fyllilega fyrir endann á. Þar sem friðun hefur átt sér stað hafa menn horft upp á merkilegar og athyglisverðar breytingar sem eru háðar aðstæðum á hverjum stað. Við höfum horft upp á þessar breytingar gerast t.d. á ákveðnum landsvæðum í því héraði sem ég þekki best til, í Eyjafirði. Þar sem beitilönd hafa verið friðuð hefur sinan tekið yfir þessi beitilönd en síðan hefur náttúran tekið við og komið upp í stað sinunnar fjölbreytilegum blómjurtum og innlendum trjátegundum og reyndar þar á meðal innfluttum trjátegundum sem hafa numið land hér í krafti mannsins og eru farnar að sá sér út og eru þar af leiðandi orðnir íslenskir landnemar.
    Ég vildi aðeins koma þessum sjónarmiðum á framfæri til þess að undirstrika það að við getum ekki með góðu móti sem náttúruverndarmenn og umhverfisverndarmenn staðið vörð um þessi rýrnandi landgæði og þá landeyðingu sem hefur átt sér stað. Við hljótum að takast á við þennan vanda. Þess vegna er ekki hlutverk okkar að setja lög um mat á umhverfisáhrifum til þess að hindra framkvæmdir af þessu tagi ef við teljum að þær séu ekki í þeim farvegi sem vera ber. Eigum við að snúa okkur að því að breyta lögum um þær stofnanir sem annast þessi verkefni en ekki að misbeita lögum um mat á umhverfisáhrifum.