Mat á umhverfisáhrifum

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 18:24:22 (1526)


[18:24]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að við, hv. þm. Tómas Ingi Olrich og ég, séum þá orðin sammála um hvað deilan snýst. Ég vil hins vegar taka fram að ég tel ekki nauðsynlegt að umhvrn., það unga ráðuneyti

og að mörgu leyti vanmáttuga, hafi umsjón með nýtingu eða e.t.v. í einhverjum einstökum tilfellum síðasta orðið þar þurfi að leiða til miðstýringar. En við erum hins vegar með mjög ungt ráðuneyti og í mörgum tilvikum get ég tekið undir að þessu ráðuneyti hafa verið færð óeðlilega mikil völd í einstökum málum. En að þessu leyti held ég að þeim markmiðum sem við virðumst bæði vera sammála um að umhverfið skuli ávallt vera fyrst og fremst það sem við reynum að taka tillit til verði best náð með því að jafnvel umhvrn. verði smátt og smátt stærra og öflugra og samvinna þess og nýtingarráðuneytanna á að vera eðlilegur hlutur af þeirri þróun. Hins vegar segir skynsemi mín að það sé að mörgu leyti gott að fara frá nýtingarhagsmunum þegar verið er að skipuleggja mat á umhverfi og þau áhrif sem þetta hefur á nýtingu og síðan komi til kasta nýtingarráðuneyta og umhvrn. að ná sátt um málið en kannski með ákveðnu, sérstöku tilliti til þess að umhvrn. ber að gæta ákveðinna hagsmuna sem geta stangast á við nýtingu.