Mat á umhverfisáhrifum

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 18:26:27 (1527)


[18:26]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að við hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson erum orðin sammála um það hvað er meginatriðið í málinu. Við getum líka verið sammála um að vera á öndverðum meiði um það eins og gengur í störfum þingsins. Hins vegar vil ég að lokum í þessu svari við andsvari koma á framfæri þeirri eindregnu skoðun minni að með því að beita lögunum um mat á umhverfisáhrifum t.d. á það hvort skynsamlegt er að nota lúpínu í uppgræðslustörf eða ekki eins og hv. þm. kom hér inn á áðan er verið að setja undir lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdir á vegum Landgræðslu ríkisins og leggja mat á hversu virkar eða góðar þær eru. Með þessu lagi er verið að gera stjórn málaflokksins mjög óskilvirkan og blanda saman málum sem engin ástæða er til þess að flækja með þessum hætti. Ef menn vilja styrkja Landgræðslu ríkisins með það að koma fram með góðar áætlanir gera menn það með lögum um Landgræðslu ríkisins en ekki með því að búa til einhverja yfirstofnun sem fer að blanda sér í áætlun hennar og það hvernig hún hefur vald á sínum málum. Ég vil því eindregið vara við því að halda fast við lög sem sýnt hefur sig að hafa valdið misskilningi og gera framkvæmd Landgræðslu erfiðari en ástæða er til.