Markaðssetning rekaviðar

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 14:08:00 (1536)


[14:08]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil leggja nokkur orð í belg um þetta ágæta mál sem hér er til umræðu. Ég á sæti í hv. landbn. og mun því fá tækifæri þar til að kanna málið og skoða allar hliðar þess. Að mínum dómi er hér einmitt um mál að ræða sem gefur möguleika á atvinnusköpun úti á landsbyggðinni. Ekki veitir nú af að skoða alla kosti sem um er að ræða til að vinna gegn atvinnuleysi og ekki síst þeim mikla samdrætti sem við höfum horft upp á í landbúnaði.
    Menn hafa verið að vitna hér til ferðar landbn. í sumar, m.a. um Strandasýslu, þar sem við sáum tilraunir til að vinna úr rekaviði. En við fengum líka að heyra þar að bændur eru uggandi um framtíð búskapar á því svæði og sögðu: ,,Hér er enginn til að taka við.`` Það ræðst m.a. af þeim miklu erfiðleikum sem landbúnaðurinn hefur verið að ganga í gegnum.
    Ég ferðaðist líka um Norðausturlandið í sumar og þar má víða sjá við strendurnar mikinn rekavið sem liggur eins og hráviði um allt og virðist vera heldur lítið nýttur þannig að hér er greinilega verk að vinna.
    En það sem mér finnst skipta máli í þessu samhengi er einmitt að það er í máli eins og þessu sem ríkisvaldið á að koma inn í til aðstoðar og þá fyrst og fremst með því að benda á eða skapa möguleika til lána þannig að hægt sé að koma af stað litlum fyrirtækjum sem vildu nýta rekaviðinn. Ríkið á einnig að aðstoða við hönnun og uppbyggingu í kringum þau litlu fyrirtæki sem hugsanlega gætu skapast í kringum rekaviðinn.
    Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um mjög gott mál að ræða sem kallar á vandaðan undirbúning. Við þurfum að velta því fyrir okkur í landbn. hvernig best er að skipa þessu máli, hvort hugsanlega ætti að ganga lengra heldur en tillagan gerir ráð fyrir og m.a. að benda á ýmis vandamál sem eru þessu samfara eins og því sem hv. 1. þm. Norðurl. e. benti á, þ.e. hvernig á að standa að söfnun rekaviðar. Það gefur auga leið að ef það á að verða einhver veruleg uppbygging í kringum vinnslu rekaviðar þá verður auðvitað fyrst að byrja á að safna honum. Þarna gæti verið um einhvers konar samvinnuverkefni að ræða milli bænda. En allt þetta verðum við að athuga í landbn.

    Ég lýsi yfir fullum stuðningi við þetta mál og mun leggja mitt af mörkum til að þessi tillaga fáist samþykkt fyrir þinglok.