Nefnd til að kanna útlánatöp innlánsstofnana

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 14:16:25 (1539)

[14:16]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 70 um skipan nefndar til að kanna útlánatöp innlánsstofnana, fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna og Byggðastofnunar.
    Flm. ásamt mér eru Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Guðrún J. Halldórsdóttir og Anna Ólafsdóttir Björnsson.
    Þetta frv. var flutt á síðasta þingi og komst til nefndar og var sent til umsagnar en náði ekki endanlegri afgreiðslu. Þar af leiðir að það liggja nokkrar umsagnir um þetta mál sem ég mun vitna til á eftir en þær eru þó alls ekki nógu margar til þess að gera sér grein fyrir undirtektum við málið.
    Það frv. sem hér liggur fyrir á rætur að rekja til þess að á hinu háa Alþingi var samþykkt vorið 1993 aðstoð við Landsbanka Íslands. Þá um vorið urðu miklar umræður um stöðu bankanna, stöðu Landsbankans sérstaklega og reyndar annarra lánastofnana. Þá vöknuðu spurningar um það hvernig stæði á slæmri

stöðu Landsbankans og reyndar annarra, bæði útlánastofnana og ýmissa sjóða.
    Á Norðurlöndunum var á sínum tíma farin sú leið þegar kreppa reið yfir bankakerfin í Noregi og Svíþjóð að setja nefndir í að kanna orsakir þeirra miklu útlánatapa sem þar urðu. Þær úttektir leiddu ýmislegt merkilegt í ljós.
    Ég tel að við hér á Íslandi búum við nokkuð sérstaka stöðu sem ræðst af því hvernig hér hefur verið um áratuga skeið skipað í yfirstjórnir banka, hvort sem þar hefur verið um að ræða ríkisbanka eða aðra, og þó einkum ríkisbankana þar sem hefur verið um pólitískar stöðuveitingar að ræða. Það er ekki nokkur vafi á því að við afgreiðslu lána hefur oft og tíðum annað ráðið en hagkvæmni og hagsmunir bankanna. Enda kemur í ljós þegar farið er ofan í þessi mál að útlánatöp banka og lánastofnana og sjóða nema tæplega 40 milljörðum kr. eða 38 milljörðum kr. á síðustu fimm árum. --- 38 milljörðum kr. á síðustu árum.
    Þessi útlánatöp sem orðið hafa hér á landi gengu seinna yfir heldur en gerðist á Norðurlöndunum og það er mjög fróðlegt að velta því fyrir sér hvers vegna þetta gerðist. Við vitum að á níunda áratugnum var lánað mikið fé til tilrauna í atvinnurekstri og þá einkum til fiskeldis og loðdýraræktar sem því miður mistókst að miklu leyti. Þar hefur orðið gríðarlegt tap á lánsfé. En töpin eru víðar. Þegar um svona gríðarlegar upphæðir er að ræða eins og hér eru á ferðinni hlýtur að vera eðlilegt að skoða hvað veldur. Þar með er ekki verið að gefa í skyn að um óeðlilega fyrirgreiðslu sé að ræða þó að þess kunni að vera dæmi og séu eflaust heldur hlýtur það að vera mjög lærdómsríkt fyrir okkur öll að átta okkur betur á þróun í peningakerfinu, átta okkur á því hvernig bönkunum hefur verið stýrt hér á landi og í hvað þessir peningar hafa farið. Utan þessara talna sem ég er að nefna er t.d. húsnæðiskerfið og Lánasjóður ísl. námsmanna sem koma ekki inn í þetta dæmi en hér eru það bankarnir og stofnun eins og Byggðastofnun.
    Hér í frv. eru birtar nýjustu tölur yfir útlánatöp og þar kemur í ljós að ef horft er á innlánsstofnanir þá náðu útlánatöpin hámarki árið 1992. En tölur yfir 1993 eru heldur lægri. 1992 voru lagðir á afskriftareikning 7,2 milljarðar en 1993 var lagður 6,1 milljarður inn á afskriftareikning.
    Ef við horfum á fjárfestingarlánasjóðina þá er þar ekki alveg sama sagan því þar náðu afskriftir hámarki 1991, eða það sem lagt var inn á afskriftareikning, þar sem lagðir voru inn 6,9 milljarðar kr., 2,4 milljarðar árið 1992 og 3,4 árið 1993. Síðan getur hér að líta tölur yfir töpuð útlán og þarna er um að ræða gríðarlegar upphæðir.
    Þegar litið er á Byggðastofnun þá hefur þar verið um stöðuga aukningu að ræða í afskrifuðum lánum og árið 1992 nam sú tala 939 millj. kr. eða tæplega 1 milljarði kr.
    Það vakna auðvitað margar spurningar í þessu máli: Í hvað hefur verið lánað, hvernig hafa þessir peningar skilað sér og er þarna um einhverja óeðlilega fyrirgreiðslu að ræða?
    Það er ekki síst fróðlegt að huga að þessu máli í ljósi þess sem gerst hefur í Færeyjum þar sem um var að ræða mikil lán í óarðbærar fjárfestingar og þar sem tókst að skapa kerfi þar sem menn gátu beinlínis gert út á lánasjóðina án þess að þurfa að standa gerðum sínum skil. Við hljótum að spyrja: Hver ber ábyrgð? Það tíðkast ekki hér á landi að menn séu dregnir til ábyrgðar þó að það hafi reyndar gerst á sínum tíma í Útvegsbankamálinu. Og þó ég taki svo til orða þá er ekki þar með sagt að það sé um neina ólöglega starfsemi að ræða heldur er það augljóst, sérstaklega þegar litið er á loðdýraræktina og laxeldið á sínum tíma, að þarna fóru menn greinilega mjög geyst. Mér finnst það alveg sérstaklega varðandi loðdýrabúin að þær lánveitingar voru alveg með ólíkindum því það sér hver heilvita maður að það var ekki markaður fyrir alla þessa gríðarlegu framleiðslu og þarna var um framleiðslu að ræða sem var mjög viðkvæm, sveiflast upp og niður og menn hafa séð alveg ótrúlegar verðsveiflur.
    Á þingi í fyrra þegar þetta mál kom til umræðu var vitnað í ýmis ummæli ráðamanna um lánastofnanir, þar á meðal um Byggðastofnun, og urðu nokkuð hörð orðaskipti milli hæstv. fjmrh. og formanns stjórnar Byggðastofnunar en fjmrh. gaf það í skyn að um óeðlilega fyrirgreiðslu væri að ræða hjá Byggðastofnun.
    Við höfum dæmi um svokallaða Vestfjarðaaðstoð sem var samþykkt hér á hinu háa Alþingi, sem er reyndar annars eðlis og Alþingi ber auðvitað ábyrgð á því, en við hljótum að spyrja: Í hvað fara peningarnir og í hvað hafa þeir farið?
    Það er nokkuð dæmigert í þeim umsögnum sem bárust um þetta frv. að menn sem eiga hagsmuna að gæta eru ekkert mjög hrifnir af því að það sé farið að skipa nefnd til þess að skoða þeirra eigin mál en það voru þó nokkrir aðilar sem komu með jákvæða umsögn um frv., þar á meðal Verslunarráð sem þó gagnrýndi þá leið sem hér er farin, þ.e. að skipa sérstaka kjörna nefnd til þess að kanna þessi mál. En það var og er skoðun okkar flm. að vegna þess hve alþingismenn sitja beggja vegna borðsins þá væri miklu eðlilegra að fá utanaðkomandi aðila til að skoða þessi mál heldur en að það verði farin sú leið að kjósa nefnd t.d. á Alþingi eða fela ríkisstjórninni að skipa slíka nefnd.
    En aðrir koma í sínum umsögnum með skýringar á því sem gerst hefur í fjármálum á undanförnum árum og er hægt að fallast á það allt saman. Það eru ýmsar skýringar á því sem gerst hefur og þá ekki síst þeir háu vextir sem hér hafa ríkt. En það eru líka ýmsir sem ekki láta í ljós álit sitt, t.d. Byggðastofnun, vegna þess að sérstaklega er nefnt að það beri að gera úttekt á henni. Neytendasamtökin tóku mjög jákvætt undir þessa tillögu.
    Þá má líka minnast á það að núv. bankastjóri Seðlabankans, Steingrímur Hermannsson, lét í ljós skoðun, sem reyndar hefur verið mjög umdeild, um skuldastöðu heimilanna að hún væri komin á það stig

að hún kynni að valda hættu á bankakreppu hér á landi, en það var einmitt skuldastaða heimilanna sem hafði mikil áhrif á bankakreppuna á Norðurlöndum á sínum tíma, ekki síst vegna mikils verðfalls sem varð á fasteignum. Þar af leiðandi er vissulega ástæða til þess að skoða skuldastöðu heimilanna í samhengi við stöðu bankanna vegna þess að við vitum að þegar horft er á heildarskuldir og greint á milli ríkis, sveitarfélaga, vinnumarkaðar eða fyrirtækjanna í landinu og svo heimilanna þá hefur skuldaaukning orðið mest hjá heimilunum í landinu meðan fyrirtækin hafa mjög dregið úr sínum lántökum og hafa verið í því fyrst og fremst að taka til í eigin ranni.
    Lántökur ríkisins hafa heldur dregist saman á allra síðustu árum en staða sveitarfélaganna í landinu er líka mjög erfið. Svo erfið að hin stóru sveitarfélög á Reykjavíkursvæðinu, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær og nú loks Reykjavík, eru komin í verulega erfiðleika og allt tengist þetta saman og tengist stöðunni í bankakerfinu.
    Í tilefni af frv., sem lagt var fram í fyrra og ég ætla að gera aðeins betur grein fyrir sjálfu inntaki þess á eftir, þá skrifað prófessor Þorvaldur Gylfason grein í Morgunblaðið í maí þar sem hann tekur mjög eindregið undir þau sjónarmið sem fram koma í frv. Hann segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Mig langar til að biðja lesandann að velta þessu fyrir sér í stutta stund. 40 milljarðar króna: Hvað skyldi það vera mikið? Það jafngildir um 600 þús. kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Þetta er engin reikningsbrella heldur beinharður kostnaður sem á eftir að leggjast smám saman með miklum þunga á þjóðina á næstu árum ef tölur þingmanna Kvennalistans reynast réttar.`` --- Sem þær auðvitað eru því þetta er beint upp úr skýrslum. --- ,,Þessi kostnaður er byrjaður að koma fram. Hann birtist m.a. í háum útlánsvöxtum sem eru að sliga fjölmörg heimili og fyrirtæki í landinu; í erlendri skuldabyrði sem er sífellt að þyngjast; og ekki síst í síauknu atvinnuleysi sem á eftir að draga dilk á eftir sér langt fram í tímann. Atvinna væri meiri nú og öruggari víðast hvar um landið ef allir þessir fjármunir hefðu verið festir í arðbærum atvinnurekstri til frambúðar.
    Þessi fjárhæð, 40 milljarðar kr., er um það bil þrisvar sinnum meiri miðað við þjóðarframleiðslu en fór í súginn í sparisjóðahneykslinu í Bandaríkjunum á síðasta áratug --- mesta fjármálahneyksli aldarinnar sem Bandaríkjamenn kalla svo. Þessi fjárhæð er líka meiri miðað við þjóðarframleiðslu en tapaðist í bankakreppu Norðurlanda fyrir nokkrum árum, alvarlegri kreppu sem hefur leitt til gagngerrar endurskipulagningar í bankarekstri þar og til starfsloka margra bankastjórnenda og málssóknar gegn sumum þeirra vegna gruns um glæpsamlega vanrækslu í starfi.``
    Síðar í þessari grein segir svo um eftirlit, með leyfi forseta:
    ,,Seðlabanka Íslands ber skylda til bankaeftirlits samkvæmt lögum. Nú, þegar 40 milljarðar króna virðast vera farnir í súginn, er nauðsynlegt að fram fari opinber rannsókn óvilhallra aðila á því með hvaða hætti Seðlabankinn hefur rækt lögboðna bankaeftirlitsskyldu sína á liðnum árum. Slík rannsókn gæti verið liður í starfi þeirrar nefndar``, þ.e. þeirrar nefndar sem frv. gerir ráð fyrir. ,,Í nefndarstarfinu þyrfti m.a. að gera sérstaka úttekt á því að hve miklu leyti ókeypis úthlutun aflakvóta til útvegsfyrirtækja hefur verið notuð til að hylja fjármálakreppuna með því að gera fyrirtækjunum kleift að standa í skilum við banka og sjóði sem hefðu komist í enn meiri kröggur að öðrum kosti. Í nefndinni þyrfti að vera erlendur sérfræðingur til aðhalds og eftirlits. Jafnframt þessu þarf Seðlabankinn að leggja fram trúverðugt mat á því hversu mikið fé hefur tapast í banka- og sjóðakerfinu hingað til svo að einstakir alþingismenn og aðrir þurfi ekki að reyna að reikna það út á eigin spýtur. Slíkar upplýsingar hafa seðlabankar birt í öðrum löndum og þykir sjálfsagt. Seðlabankinn verður að leggja spilin á borðið. Reynslan frá útlöndum bendir til þess að því lengur sem það dregst að leggja þessi gögn fram, þeim mun meiri verður skaðinn á endanum. Bankinn þarf líka að gera fólkinu í landinu grein fyrir því með hvaða hætti hann hyggst reyna að koma í veg fyrir, að útlánatapið í banka- og sjóðakerfinu haldi áfram. Því miður virðist þó ekki vera mikil von til þess að Seðlabankinn verði við slíkum óskum að svo stöddu. Meiri hluti bankastjórnarinnar er enn sem fyrr skipaður sérlegum sendiherrum stjórnmálaflokkanna. Yfirboðarar hennar hafa augljósan hag af því að hylja þann skaða sem þeir eru sjálfir búnir að valda í gegnum banka- og sjóðakerfið í sameiningu. Seðlabankar í öðrum löndum eru smám saman að öðlast meira sjálfstæði gagnvart stjórnvöldum einmitt til þess m.a. að firra almenning því alvarlega tjóni sem getur hlotist af hagsmunaárekstrum af þessu tagi, en ekki hér. Spillingin heldur þvert á móti að magnast. Ætlar fólkið í landinu að láta þetta ganga yfir sig endalaust?``
    Það eru þung orð sem koma fram í þessari grein en þau undirstrika nauðsyn þess að þessi mál verði skoðuð og greind til þess einmitt að við getum unnið úr þeirri stöðu sem við erum í, en við vitum það öll að útlánatöpum er engan veginn lokið og það tekur langan tíma að vinna sig út úr þeim vanda sem fyrirtækin og heimilin í landinu hafa verið að ganga í gegnum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að gera nánari grein fyrir sjálfu frv. en í 1. gr. þess er gert ráð fyrir því að skipuð verði fimm manna nefnd til þess að kanna útlánatöp helstu innlánsstofnana fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna og Byggðastofnunar og að í þessa nefnd verði skipaðir fulltrúa viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands, tveimur frá Ríkisendurskoðun og tveimur frá Hæstarétti og verði annar þeirra jafnframt formaður nefndarinnar. Nú er það auðvitað álitamál hvernig skipa eigi í nefnd af þessu tagi en það varð niðurstaða okkar að fara þessa leið, en við erum að sjálfsögðu tilbúnar til þess að skoða aðrar leiðir ef þær þykja fýsilegri.
    í 2. gr. frv. er hlutverk nefndarinnar skilgreint og þar er m.a. nefnt að nefndinni beri að kanna

hvort um óeðlilega viðskiptahætti hafi verið að ræða.
    Í 3. gr. er nefnt að nefndin setji sér starfsreglur og að hún verði að hafa aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum og þar af leiðandi verði hugsanlega að aflétta bankaleynd ef slík tilvik koma upp.
    Síðan er í 4. gr. ákvæði þess efnis að rannsóknarnefndin skuli hraða störfum sínum og skila skýrslu sem allra fyrst.
    Það er ekki mikið meira um þetta mál að segja, virðulegi forseti. Það varð nokkur umræða um málið í fyrra. Að vísu voru þar eingöngu stjórnarandstæðingar á ferð sem skiptust nokkuð á skoðunum um það hvers vegna svo mikið fé hefði tapast hér í bankakerfinu og hjá lánasjóðum og menn vilja auðvitað fá að skoða þetta rækilega áður en felldur er dómur yfir þá fjármálastjórn sem hér hefur ríkt á undanförnum árum. Við vitum auðvitað að oft hafa menn verið að reyna að bjarga erfiðum dæmum, m.a. til þess að viðhalda vinnu bæði í ákveðnum landshlutum og á ákveðnum stöðum, en við hljótum þó að skoða það hvort menn eru að lengja í hengingarólinni eins og stundum er sagt eða hvort þar er um einhverjar raunhæfar aðgerðir að ræða.
    Síðast en ekki síst, virðulegi forseti: Hér er um gríðarlegar upphæðir að ræða sem tapast hafa í fjármálakerfinu og það er bæði nauðsynlegt og sjálfsagt að kanna hvernig á þessu stendur og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir áframhaldandi tap.