Nefnd til að kanna útlánatöp innlánsstofnana

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 14:49:34 (1542)


[14:49]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla að segja örfá orð vegna þess frv. sem hér er flutt og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefur gert grein fyrir.
    Ég verð, virðulegur forseti, að segja það að mér sýnist nokkur sýndarmennskubragur vera á þessu frv. Ég vil hins vegar segja að það er auðvitað ástæða til að efna til umræðu og vekja menn til umhugsunar um þau miklu útlánatöp sem hafa orðið hjá innlánsstofnunum og fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna á undanförnum árum en auðvitað kemur þar margt til. Við Íslendingar höfum verið að fara í gegnum mjög erfiðan tíma, tíma óðaverðbólgu og tíma uppbyggingar þar sem mikil áhætta hefur verið tekin en því miður þá hefur e.t.v. oft verið teflt á tæpasta vað sem hefur leitt til þess að útlán hafa tapast hjá atvinnufyrirtækjum sem ekki hafa átt sér rekstrargrundvöll. Engu að síður er það góðra gjalda vert að vekja þessa umræðu, vekja athygli á þeim fortíðarvanda sem við stjórnarsinnar höfum rætt um hér á þessu kjörtímabili, á þeim fortíðarvanda sem við höfum verið að glíma við það sem af er kjörtímabilinu. Það er svo sannarlega gott að fá tækifæri til að rifja það upp.
    En þessi tillaga gerir hins vegar ráð fyrir að það sé settur á fót eins konar rannsóknardómstóll, sérstök nefnd sem reyni að kafa ofan í það hverjar séu orsakir fyrir útlánatöpum lánastofnana. Ég hef satt að segja mjög miklar efasemdir um að það svari tilgangi að hefja slíka rannsókn. Það á að veita lánastofnunum eðlilegt aðhald og nauðsynlegt aðhald en ég held að þær hafi víti til að varast og það sé e.t.v. ekki að finna innan viðskipta- eða hagfræðideilda háskólans eða hjá Hæstarétti og Ríkisendurskoðun þá einu og sönnu sérfræðinga í því að meta útlán lánastofnana. Eins segir í 1. gr. frv. að nefndarmenn megi ekki vera verulega fjárhagslega tengdir þeim félögum, sjóðum og stofnunum sem lögin taka til, né sitja í stjórn þeirra. Hversu verulega mega aðilar vera tengdir? Það væri fróðlegt að heyra skýringar á því hjá hv. 1. flm. þessarar tillögu hvar þau mörk séu. Hvort það sé svo að hæstaréttardómarar geti verið verulega tengdir einhverjum hagsmunatengslum fyrirtækjum í landinu eða þeir séu tengdir sjóðum eða stofnunum.
    Svo hins vegar þetta spursmál sem kemur fram í 2. gr. þessa frv. þar sem segir: ,,Þá kanni nefndin hvort stjórnvöld eða aðrir aðilar hafi í einhverjum tilvikum beitt óeðlilegum pólitískum þrýstingi . . .  `` Hver á að svara þessum spurningum? Hvar á að leita eftir þeim? Auðvitað liggur í augum uppi að stjórnvöld og stjórnmálamenn á hverjum tíma hafa tilteknum skyldum að gegna. Þeir hafa skyldum að gegna fyrir það fyrsta að setja löggjöf og marka stefnu um uppbyggingu í þjóðfélaginu o.s.frv. E.t.v er mjög erfitt að draga mörk á milli þess að menn séu að leggja til tiltekna mótun þjóðfélagsins eða hvort þeir séu að etja mönnum út í einhverja ófæru. Það er e.t.v. auðvelt að láta að því liggja að það sé verið að gera það m.a. með því að þrýsta á lánveitingar. Ég held að þarna sé mjög erfitt verk að vinna sem lagt er til í þessu frv. og ég er ekki sannfærður um að það þjóni tilgangi.
    Svo ég haldi áfram að rekja hér örlítið efnisatriði þessa frv. þá efast ég mjög um að það sé eðlilegt að í frv. til laga skv. 3. gr. sé það svo að nefndin eigi sjálf að setja sér starfsreglur. Ég tel að nefnd sem hefur svo feiknarlega vandasamt og viðamikið hlutverk eins og það að fara ofan í útlán sjóða og banka á undangengnum árum og reyna að komast að niðurstöðu og meta hvers vegna útlánatöpin hafa orðið sem reyndar sem betur fer hafa orðið minni hér á Íslandi en í flestum nágrannalöndum Norðurlandanna þá verði að setja skýrar og klárar starfsreglur slíkrar nefndar. Það sé ekki hægt að hafa þann víxil með þeim hætti opinn.
    Að öðru leyti, virðulegur forseti, ekki síst vegna þess að hér er takmarkaður tími, þá ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. en ég efast um að það þjóni tilgangi sínum að samþykkja það hér sem lög frá Alþingi.