Flottroll og karfaveiðar

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 14:56:48 (1544)

[14:56]
     Árni Johnsen :
    Hæstv. forseti. Það sést af þeim áhyggjum sem margir hafa af karfaveiðum við landið að skipstjórnarmenn á stórum og smáum skipum hafa meiri áhyggjur af gangi mála en fiskifræðingarnir. Þeir vilja ganga lengra í verndun karfastofnsins en fiskifræðingarnir sjálfir og það er nýlunda. Nú er það einnig sérstætt að skipstjórnarmenn byggja skoðun sína á langri reynslu, byggja á fiskifræði sjómanna, sem hingað til hefur ekki verið mikils metin í íslenska stjórnkerfinu. En fiskifræðingarnir bera því hins vegar við að þeir viti nánast ekkert um karfann utan þeirrar tilfinningar sem þeir hafa af almennri þekkingu. Fiskifræðingarnir segja jafnframt að þeir eigi ekki að taka tillit til félaglegra aðstæðna í þjóðfélaginu eða atvinnutækifæra, þ.e. hvar eigi að veiða og hvernig. Ég hef á undanförnum dögum talað við tugi skipstjórnarmanna um flottrollsveiðarnar og fiskifræðinga einnig. Undantekningarlaust ber þeim saman um að mikil hætta sé á ferðinni vegna ofveiði á karfastofninum. Hafrannsóknastofnun telur reyndar að djúpkarfinn sé ekki í hættu aðeins gullkarfinn á grunnslóðinni en skipstjórar fullyrða af reynslu sinni að djúpkarfinn standi ekki betur en gullkarfinn.
    Í stuttri umræðu verður ekki unnt að fara ítarlega í saumana á þessu máli en það er ljóst að á fáum árum hafa flottroll margfaldast að afkastagetu og opnun þessara verkfæra er ámóta og flatarmál tveggja knattspyrnuvalla. Sjómenn nota stór orð um áganginn í karfann og er það óháð umræðu sem byggist fremur á veiðarfærastríði.
    Öllum ber saman um að óheft flottrollsveiði eins og hún er í dag sé hreinlega brjálæði. Sumir vilja miklu ákveðnari lokun svæða aðrir banna flottroll innan íslenskrar fiskveiðilögsögu eins og Norðmenn gera hjá sér og þannig eru áhyggjurnar einróma varðandi þessa fisktegund sem skiptir orðið svo miklu máli fyrir þjóðarbúið og er næstverðmætust á eftir þorskinum.
    Fiskifræðingar staðfesta að á tímabilinu september--desember eigi eðlun sér stað hjá karfanum. En einmitt á þeim tíma, eða að undanförnu, hafa 30--40 flottrollsskip vaðið yfir karfaslóðirnar og nánast ryksugað allt upp. Karfinn er mjög hægvaxta og lítil þekking á ferli hans fyrstu tíu árin en þegar sjómönnum sjálfum ofbýður eins og raun ber vitni þá hlýtur eitthvað mikið að vera að. Síðasta nýliðun 10--12 ára karfa kom illa út og sumir skipstjórar telja reyndar að síðustu þrír til fjórir árgangar séu hreinlega ekki til vegna ofveiði.
    Þá er ljóst að vandinn er einnig mikill varðandi rækjutrollin og karfaseiðin en nefna má að Kristófer skipstjóri á Sæfara frá Akranesi tók eina fötu úr rækjutrollinu í Kolluálnum fyrir ekki alls löngu og taldi karfaseiðin. Fjöldi þeirra í þessari einu fötu í hentugri veiðistærð var sem nemur 70 tonna holi. Þetta segir mikla sögu af fiskifræði sjómanna.
    Veiðar af karfa í botntroll hafa ekki verið eins daprar um langt árabil eins og nú er og veiðist nú þrisvar sinnum minna en fyrir þremur árum og er þó 20 ára reynsla að baki í Skerjadýpinu og á hefðbundnum karfamiðum sem eru allt frá 90 mílum suðvestur af Reykjaneshrygg og suðvestur af Reykjanesi og austur fyrir Vestmannaeyjar og Suðausturland allt út að 60 mílum frá landinu. Þá hefur aflinn í flottroll dregist stórlega saman miðað við sóknaraukninguna og nú pantar útgerðin í stórum stíl 10 milljóna kr. flottrollspakka vegna þess að menn eru neyddir til að taka þátt í leiknum og enginn er tilbúinn til að taka af skarið um að við fljótum sofandi að feigðarósi, síst fiskifræðingarnir. Reyndustu skipstjórar á flottrollstogurum lýsa áhyggjum sínum í þessum efnum en treysta sér ekki til þess út á við vegna þess að þeir eru með þessi verkfæri um borð. Skipstjórar og útgerðarmenn sem hafa nánast hatað flottroll eru nú að panta þau vegna þess að annars missa þeir af strætisvagninum. Botntrollsskip fær um þessar mundir 3--4 tonna afla á sólarhring á hefðbundinni karfaslóð á sama tíma og flottrollið nær um 20 tonnum með því að toga nánast allan sólarhringinn. Þessi vandi er margþættur. Karfastofninn er í stórhættu, atvinna þúsunda landsmanna er í stórhættu og þjóðarbúið í heild er í hættu. Það mætti nefna afmörkuð dæmi í þessu efni, samsetning kvóta báta hefur brenglast verulega. Þá er til að mynda ljóst að mínu mati að frystitogaraflotinn er allt of stór og þannig mætti áfram telja. En þótt það sé ekki til umræðu hér þá er einnig orðið ljóst að mínu mati að það verður að tryggja betur stöðu almenna bátaflotans í því fiskveiðistjórnunarkerfi sem við búum við. Þar hallar verulega á og það verður að rétta við á kostnað þeirra stærri, ekki síst vegna atvinnu í landi og til að fyrirbyggja að fiskveiðar færist yfir á hendur fárra og stórra aðila. Það er auðvitað rétt og æskilegt að ýta stóru togurunum eins og kostur er út af grunnslóðinni. En með þessu móti þarf einnig að tryggja að veiðar Íslendinga færist ekki á hendur fárra fyrirtækja eins og þróunin hefur sýnt. Sú þróun er ekki ásættanleg og með ósætti verður þetta land hvorki byggt né sjálfstætt til lengdar þegar um grundvallaratriði er að ræða.
    Fiskifræðingar telja sig þó vita það mikið um karfann að hann lyftir sér frá botni til eðlunar frá september til desember en síðan gýtur hrygnan í apríl/maí. Er þar aldrei friður á þessum karfaslóðum og ef það á endalaust að beina fleiri og fleiri skipum á karfann eins og gert hefur verið á undanförnum árum, bæði varðandi togara og almenna vertíðarbáta, þá er fjandinn laus. Þá sjá menn með einfaldri, almennri

skynsemi að dæmið gengur ekki upp. Sóknin hefur stóraukist, aflinn hefur snarminnkað miðað við sókn, áhyggjur skipstjórnarmanna eru vegna yfirvofandi eyðileggingar karfastofnanna sem yrði langsóttara að ná aftur upp en til að mynda þorskinum vegna þess hve hægvaxta karfinn er.
    Um leið og ég spyr hæstv. sjútvrh. um stöðu mála í þessu efni af hálfu hans ráðuneytis vil ég sem útgangspunkt í máli mínu hvetja hæstv. sjútvrh. til þess að skipa nú þegar ráðgjafarhóp 30 skipstjórnarmanna víðs vegar að af landinu, skipa þá til tveggja ára í senn til þess að koma saman ekki sjaldnar en tvisvar á ári, bera saman bækur, leggja á ráðin og koma með tillögur til ráðherra og Alþingis. Það er bjargföst sannfæring mín að slík nýting á fiskifræði sjómanna mundi nýtast mjög vel til heilla íslenska samfélaginu, mundi draga úr vaxandi tortryggni í garð allra veiða við landið, mundi kalla á aukna samvinnu sjómanna, fiskifræðinga og stjórnmálamanna og mundi umfram allt auðvelda framkvæmd nýtingar á mestu auðlind landsins.
    Virðulegi forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Ég hef rætt þessa hugmynd um ráðgjafarhóp skipstjórnarmanna með víðtæka reynslu við fjölda af reyndustu skipstjórnarmönnum landsins og þeir telja einróma að slík vinnubrögð kynnu að losa um marga þröskulda og vandræði í framkvæmd fiskveiðistjórnunarinnar. Þótt þessir menn séu dagsdaglega að verja sinn hlut í kvótakerfinu er jafnljóst að þeim er fyllilega treystandi til þess að komast að niðurstöðu um heildarhagsmuni í slíkum ráðgjafarhóp.