Flottroll og karfaveiðar

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:14:46 (1548)


[15:14]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Þessa dagana er margt að í íslensku þjóðfélagi og það er ekki allt broslegt. Það

er verkfall í sjúkrahúsum og valdsmenn og margir óbreyttir þingmenn eru fjarri á erlendri grund. Fyrir fáum dögum horfði ég á þá sjón frá Vestmannaeyjum að frystitogararnir, ryksugurnar, óðu í karfanum austur af Eyjum upp undir landsteina. Þrátt fyrir þetta get ég ekki varist brosi í tilefni þeirrar umræðu sem hér er hafin og það þótt fiskstofnarnir séu að hrynja. Mér þykir nefnilega hlýða í tilefni af henni að vekja athygli þingheims á því að hv. fyrirspyrjandi og sá er situr fyrir svörum voru báðir uppteknir við annars konar útreikninga og máttu því ekki vera að því að gæta að karfastofninum þessa umræddu daga. Það var nefnilega þarfari útrýming sem þar var á ferðum og þurfti að sinna. Ég held því, virðulegi forseti, að það verði að afsaka báða þá ágætu þingmenn sem hér komu við sögu. ( Gripið fram í: Hvaða þingmenn?) Þeir voru bara uppteknir við miklu þýðingarmeira mál en karfastofninn.