Verkfall sjúkraliða

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:22:32 (1552)

[15:22]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hef séð mig knúða til þess að óska eftir því að eiga orðastað við hæstv. starfandi fjmrh. vegna þess erfiða ástands sem orðið er, bæði á einkaheimilum aldraðra, sjúkrastofnunum og öldrunarheimilum. Þetta ófremdarástand má rekja til þess að sjúkraliðar hafa orðið að boða til verkfalls vegna þess að hvorki hefur gengið né rekið í samningaviðræðum við ríkið og aðra vinnuveitendur þeirra sl. 20 mánuði. Það er undarlegt að störf við uppeldi, umönnun og aðhlynningu fólks eru ætíð vanmetin til launa, en því fagurlegar rætt um þau á tyllidögum. En umönnunarstörf, hæstv. ráðherra, eru ekki til að fjasa um á hátíðum, þau eru rammasta alvara samfélagsins. Á þeim byggist það hvort samfélag getur kallast siðmenntað eða ekki. Því ber yfirvöldum að sjá til þess að þær stofnanir sem umönnun veita séu vel búnar starfsfólki.
    Sjúkraliðar eiga veigamiklu verki að gegna, einkum við umönnun aldraðra. Á öldunarstofnunum er einn þriðji hluti starfsfólks úr þeirra hópi og svo mikilvægt er starfið að vissum hluta þeirra er bannað að fara í verkfall og ætti því í samræmi við það að vera vel launað. En þetta er kvennastarf og metið samkvæmt því.
    Ég hef í máli mínu einkum beint augum að öldrunarstofnunum, en ástandið á einkaheimilum aldraðra er sýnu verra því að oft er koma sjúkraliðanna og Sóknarfólksins það eina sem hinn aldni í heimahúsi getur stólað á og bregðist koma þeirra er viðkomandi afar illa staddur því að sumir eiga bara enga aðra að. Endurhæfingardeildir sjúkrahúsanna lamast líka að hluta, svo og lyfjadeildir og heimilin í landinu verða einnig að taka sinn skerf því að sjúklingar verða sendir heim af þessum deildum raunar löngu áður en fært er. Áhrif þessa verkfalls teygja sig því út um allt samfélagið og valda áhyggjum, vinnutapi og vandræðum.
    Launakjör sjúkraliða eru bág. Lægstu laun eru 56.631 kr. á mánuði, en við umönnun aldraðra eru byrjunarlaun þó 60.080 kr. á mánuði. Ofan á þetta bætist svo að sjálfsögðu vaktaálag og helgidagaálag. Hæstu laun almennra sjúkraliða eru 73.090 kr. og sjá það allir að erfitt er að framfleyta sér með þessum greiðslum. Þar við bætist að starfið er svo erfitt að fæstir sjúkraliðar orka fullu starfi, enda treysta margir vinnuveitendur sér ekki til að leggja á þá fullan vinnutíma. Meðalvinnuhlutfall þeirra er því 75% starf, sem með vaktaálagi og helgidagaálagi getur náð 74 þús. kr. í laun.
    Starf sjúkraliða og raunar líka Sóknarfólks í umönnunarstörfum er afar krefjandi. Sífelldur erill, átakavinna við að lyfta fólki og hjálpa því til að hreyfa sig og við það bætist að mikla skapstillingu og æðruleysi þarf til að sýna þá endalausu þolinmæði sem starfið krefst. Ég geri það að tillögu minni, hæstv. ráðherra, að næsta skref í samningamálum verði það að samninganefndarmenn ríkisins með ráðherra í fararbroddi, kannski fleiri en einn, bæði heilbrrh. og fjmrh., sem ættu báðir að vera hér en eru nú erlendis, vinni svo sem í einn eða tvo daga á öldrunarheimili til að fá reynslu af því hvað um er að tefla. Ég er viss um að þegar ráðherra hefur klætt fólk, matað það og þrifið, en margt ræður það hvorki við þvag né saur eins og við vitum, og háttað það að kvöldi í einn eða tvo daga, þá skilur hann betur hvers virði störf þeirra eru sem annast aðra, hvort sem um er að ræða sjúkraliða eða Sóknarfólk, og lætur sér þá ekki detta það í hug að leggjast á laun sjúkraliða til að halda hinu niðri, eins og fullyrt er í dagblöðum að gert sé.
    Virðulegi forseti. Eins og ég hef bent á er starf sjúkraliða í öldrunarþjónustu svo erfitt að þeir orka varla að vinna átta stunda vinnudag. Því væri e.t.v. besta heildartilboð sem hægt væri að gera að semja um styttan vinnutíma sjúkraliða þannig að 36 stunda vinnuvika jafngilti 100% starfi. En hugsanlega hefur ráðherra eitthvað annað og betra uppi í erminni að bjóða. Tilboð það um 3% launahækkun sem sjúkraliðum hefur verið boðið átti aðeins að gilda fyrir starfsfólk með fimm ára starfsaldur eða meira. Varla er svona tilboð sett fram í alvöru. Lægst launaða fólkið virðist ekki hafa átt að fá neitt. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig miðar samningunum? Er hægt að finna fleti á þessum kjaramálum sem hægt er að sættast á og hvenær er lausnar að vænta?