Verkfall sjúkraliða

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:27:56 (1553)


[15:27]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu alvarlega deilumáli sem við eigum við að stríða og ég vil taka undir þau sjónarmið sem hv. málshefjandi hafði um

þýðingu og gildi þeirra starfa sem sjúkraliðar hafa með höndum. Vegna fyrirspurna hv. málshefjanda vil ég taka það fram að samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið frá fjmrn. hafa verið haldnir 29 fundir í þessari deilu og sá 30. er fyrirhugaður í dag. Fyrsti fundurinn mun hafa verið haldinn 20. sept. 1993, en viðræður svo með mislöngum hléum átt sér stað, en meginhluti fundanna hefur farið fram nú á haustmánuðum.
    Varðandi efni þess tilboðs sem lagt var fram af hálfu samninganefndar ríkisins vil ég vitna til minnisblaðs frá samninganefndinni, þar sem segir svo:
    ,,Krafa félagsins [þ.e. Sjúkraliðafélagsins] um breytingar á launastiga er óljós. Ekki kemur fram bein tillaga um hækkun, en gerð er krafa um hækkun til samræmis við ýmsa starfshópa í opinberri þjónustu, svo sem hjúkrunarfræðinga, þroskaþjálfa, læknaritara, læknafulltrúa, Sóknarstarfsmenn og fleiri. Starfshópar þessir eru á mismunandi kjörum sem hafa breyst með mismunandi hætti að undanförnu. Samninganefnd ríkisins taldi ekki vera tilefni til að breyta launastiga félagsins og að æskilegra væri að gera þær breytingar sem um semdist með breytingum á starfsheitum og röðun þeirra. Kröfur félagsins um breytta röðun í launaflokka voru m.a. þær að taka tillit til sérverkefna ýmissa starfsmanna. Í tilboði samninganefndar ríkisins er komið til móts við þessar kröfur með ýmsum hætti. Bætt er í röðunina nýju starfsheiti sem tekur mið af starfsreynslu almennt og tekin eru upp ný starfsheiti fyrir ýmis sérgreind störf á sjúkrastofnunum. Kröfum um ýmsar breytingar á ákvæðum um vaktavinnu hefur verið mætt í tilboði samninganefndar ríkisins þar sem orðið er við sumum þeirra.
    Sjúkraliðafélag Íslands gerði kröfu um rýmkun ákvæða er snerta námskeið fyrir sjúkraliða og áhrif þeirra á laun. Í tilboði samninganefndar ríkisins er tillaga í því efni sem byggir á niðurstöðu úr samstarfi beggja aðila um það efni. Í tilboði samninganefndar ríkisins eru ákvæði um láglaunabætur og orlofsuppbót í samræmi við kröfur félagsins eins og samið hefur verið um við aðra starfshópa. Í kröfugerð sinni fór Sjúkraliðafélag Íslands fram á að samningur félagsins tæki formlega til félagsmanna þess sem starfa á stofnunum utan höfuðborgarsvæðisins samkvæmt ákvæðum í kjarasamningum stéttarfélaga starfsmanna bæjarfélaga. Í tilboði samninganefndar ríkisins er gert ráð fyrir að þessi ákvæði verði hluti af formlegum samningi við félagið.``
    Eins og kunnugt er var þessu samningstilboði sem samninganefnd ríkisins lýsir með þessum hætti hafnað, en gagntilboð hefur ekki enn borist af hálfu Sjúkraliðafélagsins.
    Samkvæmt upplýsingum sem fjmrn. fékk í dag frá hjúkrunarforstjóra Landspítalans hefur ráðuneytið fengið þessar upplýsingar um stöðuna á Ríkisspítölunum í dag. Tekið er á móti öllum bráðasjúklingum en lítið tekið inn af biðlistum. Útskrift sjúklinga af sjúkrahúsunum er með venjubundnum hætti, þ.e. ekki eru útskrifaðir sjúklingar sem teljast ófærir um að útskrifast. 52 af 535 rúmum Ríkisspítalanna hefur verið lokað. Ekki er hægt að segja að neyðarástand ríki, frekar að ástandið sé óþægilegt. Mestum erfiðleikum veldur að sjúkraliðar sem eiga að starfa samkvæmt auglýstum lista mæta ekki á nokkrar deildir, þar á meðal á tvær öldrunarlækningadeildir í Hátúni. Vegna verri mönnunar deildanna ganga störfin hægar, en reynt er að sinna sjúklingum eftir bestu getu. Sjúklingar á biðlistum þurfa að bíða lengur en ella.
    Þetta er lýsing hjúkrunarforstjóra Landspítalans á stöðu mála á Ríkisspítölunum.
    Eins og hér hefur komið fram þá hefur samninganefnd ríkisins lagt fram þetta tilboð sem hér hefur verið lýst. Sjúkraliðafélagið hefur hafnað því, en ekki gert gagntilboð. Ég vænti þess að áframhaldandi viðræður aðila geti leitt þessa deilu sem fyrst til lykta. Okkur hlýtur öllum að vera ljós sá mikli vandi sem við stöndum frammi fyrir þegar þýðingarmiklir starfshópar, ekki síst á sjúkrahúsum, eiga í vinnudeilu og af hálfu ríkisvaldsins verður að sjálfsögðu kappkostað að leiða deiluna til lykta. Ég ítreka vonir mínar um það að frekari viðræður geti skilað okkur nær því markmiði svo fljótt sem verða má.