Verkfall sjúkraliða

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:33:14 (1554)


[15:33]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að fitja upp á þessu máli hér og ráðherra fyrir kannski lokaorðin í hans svari um það að auðvitað mundu málsaðilar leggja sig fram um það að reyna að leysa þetta erfiða deilumál sem við stöndum nú frammi fyrir. En ég held að það sé rétt að undirstrika að það er afar hættulegt ástand sem skapast í landinu þegar heilbrigðisstéttir fara í verkfall. Og þó að e.t.v. sé ekki enn þá það sem hægt er að kalla neyðarástand þá er ég þó alveg sammála því sem kom fram í máli málshefjanda hér áðan, að þetta hefur víðtæk áhrif nú þegar á fjölmargar fjölskyldur og fjölmörg heimili og sé með þeim hætti að þar sé a.m.k. hægt að tala um neyðarástand þó að það sé kannski ekki almennt. Ég legg því áherslu á það og undirstrika að það sé mjög mikilvægt að vinna hratt og vel. Mér sýnist að það sé varla hægt að tala um að það hafi verið gert þegar samningaviðræður hafa nú staðið í meira en ár og ég býst við að það sé hægt að fullyrða að sjúkraliðar hafi sýnt mikla þolinmæði í því að þoka sínum málum áleiðis og sú þolinmæði hafi nú verið þrotin. Það tel ég að sé ekki að undra. Tilboð ríkisins eins og það liggur fyrir sýnist mér vera algerlega óviðunandi miðað við þær leiðréttingar sem gerðar hafa verið á kjörum annarra heilbrigðisstétta og það verði að færa sig lengra til þess að einhver von sé um samkomulag í þessari erfiðu deilu. Ég undirstrika það aftur að ég veit að ábyrgð heilbrigðisstéttanna er mikil og ég fullyrði að sjúkraliðar séu mjög meðvitaðir um þá ábyrgð sem þeir bera og auðvitað verða báðir eða allir aðilar að virða leikreglur þegar um svo viðkvæma deilu er að ræða eins og við búum nú við.
    Samningar við aðrar heilbrigðisstéttir á þessu ári hafa reyndar leitt til þess að vandi sjúkrahúsanna hefur orðið mikill því að heilbrrn. eða stjórnvöld hafa ekki séð sóma sinn í því að bæta heilbrigðisstofnunum, sjúkrahúsunum, þann aukakostnað sem þeim hefur fylgt og það má kannski bæta við spurningu til hæstv. ráðherra: Er þetta kannski leið til þess að spara í sjúkrahúsunum, ná endum í fjármálum ríkissjúkrahúsanna, að halda sem lengst þessu verkfalli? Ég vona að svo sé ekki og vona sannarlega að ráðherra mæli heilt þegar hann segir að það verði að leggja sig fram um það að ná niðurstöðu og sáttum og ríkisvaldið verður að leggja sig fram í því efni.