Verkfall sjúkraliða

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:35:50 (1555)


[15:35]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég þekki af eigin raun mjög vel til starfa sjúkraliða, bæði á sjúkrahúsum og við heimilishjúkrun, og ég veit að hér er um erfitt starf að ræða og illa launað. Það sem ég furða mig á er að það er byrjað að ræða um lausn á þessu máli fyrir tæplega 14 mánuðum eða 20. sept. á sl. ári og samkvæmt upplýsingum staðgengils fjmrh. hafa verið haldnir samtals 29 fundir.
    Mér finnst sorglegt til þess að vita hvað þessar samningaumleitanir hafa tekið langan tíma og verið miklar tafir á milli. Mér finnst hörmung til þess að vita að boðin hafa verið 3% hækkun, gert tilboð um 3% hækkun launa sjúkraliða, en það bundið því skilyrði að þeir hafi unnið við sjúkraliðastörf í 5 ár til þess að fá þessi 3%. Þetta tilboð, að mínum dómi, gerir ekki það að verkum að sættir séu auðveldari í deilunni. Ég er ekki að deila á staðgengil fjmrh., hann er aðeins að koma hér með upplýsingar frá launanefndinni, en ég hvet hinn raunverulega fjmrh., þegar hann kemur, að beita sér fyrir því að lausn fáist á þessu máli því að hér er um neyðartilfelli að ræða á mörgum sviðum, utan sjúkrahúsanna og einnig innan þeirra. Það er heldur ekki hægt að leggja svona mikið á þá sem vinna eftir sem áður þegar allur þessi hópur hefur lagt niður vinnu.