Verkfall sjúkraliða

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:40:40 (1557)


[15:40]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Enn einu sinni er fjölmenn kvennastétt í heilbrigðisgeiranum komin í verkfall. Fyrr á þessu ári áttu meinatæknar í hörðum og alvarlegum vinnudeilum og ekki alls fyrir löngu áttu hjúkrunarfræðingar í hlut. Þessar síendurteknu deilur spegla óánægju kvenna með smánarleg launakjör og óþolandi launamisrétti, en þær sýna líka hve samskipti ríkisins við starfsmenn sína eru í slæmum farvegi eins

og dæmin sanna. Það er alltaf sama sagan. Samninganefndin stundar endalaus samanburðarfræði, sem nefndarmenn eru reyndar snillingar í. Þeir gera fáránleg tilboð og allt fer í bál og brand. Það verður þó að segja að það er jákvætt að samningafundir standa yfir. Þeir hafa þó ekki stöðvast.
    Sjúkraliðar eru á sjötta degi verkfalls og mjög alvarlegt ástand mun skapast á sjúkrastofnunum ef verkfallið dregst á langinn, en á meðan eru þeir ráðherrar sem í hlut eiga á fundum erlendis. Það þykir mér mikið ábyrgðarleysi en það er ekki einsdæmi.
    Virðulegi forseti. Ég skora á starfandi fjmrh. að beita sér í þessari vinnudeilu og að leita lausna þegar í stað meðan hann situr í þessu embætti. Hér er um réttlætismál að ræða. Stétt á í deilum sem hefur verið án samninga í um 20 mánuði, stétt sem vinnur ábyrgðarmikil störf sem samfélagið getur ekki verið án. Sjúkraliðar eiga rétt á leiðréttingu eins og aðrar heilbrigðisstéttir og þeir eiga að fá hana.