Verkfall sjúkraliða

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:44:58 (1559)


[15:44]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það hefur skapast grafalvarlegt ástand. Það er ekkert óvænt. Viðræður eru búnar að standa á annað ár. Fjmrh. hefur ekkert viljað hreyfa sig, hann hefur verið upptekinn af því að fella niður hátekjuskattinn. Því miður verður þetta mál ekki leyst í dag. Hæstv. ríkisstjórn er nú einungis skipuð tveimur mönnum, þ.e. hérlendis. Fjmrh. er fjarstaddur úti í Noregi í kosningabaráttu Norðmanna. Mér fannst hv. málshefjandi fara á fremstu nöf þegar hann stakk upp á því að hæstv. ráðherrar færu að sinna sjúkraliðastörfum. (Gripið fram í.) Þeir eru nú búnir að sýna það við stjórn landsins að þeim er ekki treystandi. Guð almáttugur forði íslenskum sjúklingum frá því að láta ráðherrana fara að annast um sig. En þessa deilu verður að leysa. Það dugir ekkert fyrir fjmrn. að þumbast meðan aðrir þjást og allt stefnir í óefni. En það verður líka að gera þá kröfu til sjúkraliða að þeir sýni eðlileg vinnubrögð varðandi undanþágur því það veldur sjaldan einn þá tveir deila.