Verkfall sjúkraliða

34. fundur
Miðvikudaginn 16. nóvember 1994, kl. 15:54:44 (1564)


[15:54]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. málshefjanda og þakka þær umræður sem hér hafa farið fram. Það er alkunna að Alþingi leysir ekki kjaradeilur eins og þessa en hitt er satt og rétt að það er eðlilegt að Alþingi kalli eftir greinargerð um alvarlega deilu eins og þessa og ég tel að ég hafi með málefnalegum hætti gert grein fyrir stöðu þeirrar deilu frá sjónarmiði fjmrn.
    Ég hef í sjálfu sér engu þar við að bæta í lok umræðunnar en vil aðeins gera athugasemd við það sem fram kom í máli hv. 15. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. v. þar sem látið var að því liggja að fjarvera fjmrh. og heilbrrh. við skyldurstörf í norrænu samstarfi tefði framgang þessara viðræðna. Þetta er rangt. Fjarvera þeirra tefur viðræðurnar ekki á nokkurn hátt. Samninganefnd ríkisins hefur fullt umboð til þess að halda viðræðum áfram og starfandi fjmrh. getur gefið hver þau fyrirmæli sem nauðsynleg eru varðandi framgang viðræðnanna. Það er mikilvægt að þetta sé alveg ljóst að þessar aðdróttanir hafa ekki við nokkur rök að styðjast.
    Það kemur skýrt fram í yfirlýsingu formanns samninganefndar ríkisins þegar hann hefur lýst því að nefndin hafi átt von á gagntilboði frá Sjúkraliðafélaginu, að tilboð samninganefndarinnar var ekki lokaniðurstaða máls, í því fólust ekki úrslitakostir, þegar formaður samninganefndarinnar lýsir því yfir að hann hafi átt von á gagntilboði sem samninganefndin hafi verið tilbúin að ræða þá er alveg ljóst að það liggja ekki fyrir neinir úrslitakostir í því tilboði sem lagt hefur verið fram af hálfu ríkisins. Það er mikilvægt að þessi staðreynd liggi líka fyrir í lok þessarar umræðu.