Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 10:32:05 (1569)

[10:32]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. sem er svo sem gamall kunningi, kom til umræðu í fyrra í svipuðu formi en náðist ekki að afgreiða sem lög á því þingi. Það hafa verið gerðar nokkrar breytingar á frv. sem sumar eru til bóta að mínu mati en aðrar orka tvímælis. Ég tel að það sé svo komið að hv. Alþingi verði að reyna að ganga frá þessum málum þannig að náttúruverndin sem slík geti orðið að aðalatriði en ekki það hvernig skipulag þessara mála er innan stjórnsýslunnar. Ég held að það séu allir sammála um það að tími Náttúruverndarráðs er liðinn í því formi sem það er í dag með tilkomu umhvrn. og því verður að gera þarna breytingar. En hitt er annað mál hvernig þær eiga að vera. Ég veit að það er mikil ósamstaða um það bæði innan þess hóps sem sinnir náttúruverndarmálum og eins hér á hv. Alþingi. Ég vil hins vegar segja í framhaldi af þessu að ég held að flestallir Íslendingar hafi áhuga á náttúruvernd og það sé ekki lengur eins og var fyrir einhverjum áratugum að það séu bara einstaka menn sem láta sig þann málaflokk varða.
    Það sem ég velti fyrir mér fyrst og fremst og lét koma fram í fyrra þegar frv. til náttúruverndarlaga var hér til umfjöllunar var að mér finnst að það þurfi að leitast við að færa meiri völd heim í héruð og nær fólkinu og nær vettvangi þó ég geti ekki alveg gert mér grein fyrir hvernig það skuli gert. Það er enn til staðar miðstýringarárátta í frv. sem nýtur ekkert sérstakra vinsælda á landsbyggðinni.
    Það sem þetta frv. gengur fyrst og fremst út á að mínu mati er það að færa verkefni frá Náttúruverndarráði yfir til svokallaðrar Landvörslu ríkisins. Þessi Landvarsla ríkisins á að hafa gífurlega mikið verkefni og má þar nefna að hún á að hafa umsjón með þjóðgörðum og getur m.a. takmarkað umferð. Árlega á hún að gefa umhvrh. skýrslu. Hún á að sjá um að gerðar verði skipulagsáætlanir, hún á að hafa forgöngu um fræðslu, hún á að geta rekið gestastofur í þjóðgörðum, hún á að efla áhuga á náttúruvernd, hún á að hafa samstarf við Náttúruverndarráð og samtök áhugamanna um náttúruvernd, hún á að stuðla að héraðsfundum um náttúruvernd og hún á að fylgjast með því að náttúru landsins sé ekki spillt svo eitthvað sé nefnt. Þessi Landvarsla ríkisins á hins vegar að vera þannig saman sett og stjórn hennar að hæstv. umhvrh. skipar í stjórn án tilnefningar og það er breyting frá því sem var í því frv. sem hér var til umræðu fyrir u.þ.b. ári síðan. Ég hef miklar efasemdir um að þetta sé til bóta. Þó að ég í sjálfu sér geti treyst núv. hæstv. umhvrh. ágætlega til þess að skipa þarna góða stjórn þá held ég að hafa í lögum að ráðherra skipi stjórn án tilnefningar bjóði upp á alls konar áhættur sem við eigum ekki að vera að taka í lagasetningu. Þetta er eitt af því sem hlýtur að koma til athugunar í hv. umhvn. þegar málið fer þangað til umfjöllunar.
    Náttúruverndarráð sem slíkt verður til staðar mest sem umsagnaraðili og einhvers staðar kemur það fram í lagatextanum að það má hafa aðrar skoðanir heldur en ríkisvaldið og það er í sjálfu sér mjög gott að hafa það á prenti. En náttúruverndarþing á sem sagt áfram að verða til og koma saman annað hvert ár. Þar fer fram mikilvæg umræða um náttúruverndarmál þannig að það er engin ástæða til annars en að náttúruverndarþing haldi áfram að koma saman sem nokkurs konar grasrótarsamkoma. Ég lýsi yfir stuðningi við það.

    Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að mér finnst mikilvægt að þó að þetta þing muni starfa stutt þá reyni Alþingi að ná einhverri niðurstöðu í þessum málum því eins og málum er skipað í dag þá er Náttúruverndarráð hálfgerður bastarður í kerfinu og á því verðum við að finna einhverja lausn. Ég trúi ekki öðru en hv. umhvn. geti unnið þetta frv. þannig að úr því verði sæmileg lagasetning.
    Svo er það annað mál sem hv. formaður umhvn. kom inn á þegar málið var til umfjöllunar í síðustu viku. Hún talaði svolítið undir rós en mér heyrðist að hún væri að ýja að því að Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins ættu að heyra undir umhvrn. Þar kem ég að nokkuð viðkvæmu máli og veit ég að um það er ekki mikil samstaða innan núv. hæstv. ríkisstjórnar hvernig þeim málum skal skipað. Minn flokkur hefur verið þeirrar skoðunar að Skógræktin og Landgræðslan eigi að heyra undir landbrh. og það vil ég ítreka hér. Hins vegar geri ég mér vel grein fyrir því að þetta skapar ákveðna erfiðleika í framkvæmd og vegna þess hefur verið komið upp hópi sem á að vera einhvers konar samstarfsaðili þannig að þessir aðilar viti hver af öðrum og viti um þankagang hvers annars sem hefur verið kallaður ,,nasl-hópur`` eða ,,nasl-nefnd`` og kemur hún víst saman annað slagið án þess að þar sé verið að tala í mjög mikilli alvöru. Það er í og með vegna þess að mínu mati að innan landbrn. og ekki síst hæstv. landbrh. vill hafa ófrið um þessi mál. Það finnst mér alvarlegt. Og það finnst mér alvarlegt sem bónda að hæstv. landbrh. vill vera í stríði við umhvrn. og við Náttúruverndarráð og helst alla sem umhvrn. tengjast.
    Ég var að tala um hæstv. landbrh. þegar rauða ljósið fór að blikka. Ég hef kannski ekki miklu við það að bæta sem ég hafði þegar látið koma fram um hans afstöðu í þessum málum sem mér finnst ekki til fyrirmyndar og ekki bændastéttinni til framdráttar.
    Eitt af því sem komið er inn á í frv. og er líka nokkuð viðkvæmt mál varðar gjaldtöku á ferðamannastöðum. Við höfum verið dálítið feimin við það Íslendingar að koma þessu ákvæði inn í lög og þetta er með þeim fyrirvara að ágóði skuli nýttur til framkvæmda á viðkomandi stað og ég held að það sé í sjálfu sér alveg rétt að hafa þann hátt á. Ég vil strax við 1. umr. lýsa yfir stuðningi við það atriði. Ég held að það verði bara að taka af skarið með það og heimila að gjaldtaka megi eiga sér stað. Auðvitað er erfitt að ganga of langt í þeim efnum og það má alls ekki gera, en að í lögum sé heimildarákvæði hvað þetta snertir tel ég vera rétt.
    Ég veit ekki hvað ég á að hafa mikið fleiri orð um þetta, ég held ég sé búin að koma að því sem mér finnst mikilvægt. Friðlýsingarþátturinn er styrktur í þessu frv. og í mínum huga er það rétt að friðlýsa hluta landsins. Ég held að við Íslendingar getum alveg gert það, að friða meira land. Við höfum það stórt land að það er ekki ástæða til að nytja það allt. Þó vil ég leggja mikla áherslu á það að landið á ekki bara að vera falleg glansmynd til að horfa á. Auðvitað lifum við Íslendingar á því að nytja landið okkar þó við viljum að sjálfsögðu að það sé ekki skemmt og það sé ekki skaðað til framtíðar. Það sem hefur aðallega verið talað um í því sambandi er svokölluð sjálfbær þróun. Það orðatiltæki held ég að allir skilji. Ég sjálf hef alist upp við það að landið sé nytjað en borin fyrir því virðing engu að síður og það er þannig sem mér finnst að við Íslendingar eigum fyrst og fremst að hugsa.
    Hæstv. forseti. Ég lýsi hvorki andstöðu né stuðningi við þetta frv. á þessu stigi málsins en vil þó að það komi hér fram að mér finnst að Alþingi verði að taka á þessum málum þannig að innan stjórnsýslunnar sé fyrirkomulag sem geti verið varanlegt og málefninu til framdráttar.