Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 11:15:29 (1576)


[11:15]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er mikið að vöxtum og afar merkilegt og felur í sér margvíslegar breytingar og mig langar til að tala meira almennt um efni þess frekar en að fara ofan í sérstaka þætti. Ég er mikil áhugamanneskja um umhverfisvernd og þar með náttúruvernd og ég er þeirrar skoðunar að í þeim málum sé nokkur nauðsyn á miðstýringu og nokkuð sterku valdi umhvrn. sem þó má að sjálfsögðu ekki fara út í öfgar. Þessi mál eru það viðkvæm að ráðuneytið eða þær stofnanir sem málin heyra undir þurfa oft að hafa rétt til þess að grípa inn í. Mér dettur þá t.d. í hug Siglingamálastofnun og dæmi þess þegar umhverfisslys verða þá verða viðkomandi aðilar að hafa nokkuð sterkt og ákveðið vald til þess að geta gripið inn í. Það sem er líka mjög mikilvægt er að samvinna ráðuneytisins og allra þeirra aðila sem annast náttúruvernd, samvinna við fólkið í landinu, sé góð. Það er augljóst að mínu mati að þar hefur ekki verið nógu vel staðið að verki á undanförnum árum.
    ( Forseti (GHelg) : Forseti verður að biðja hv. þm. að hafa hljóð.)
    Ráðherrar eru kátir í hliðarsölum og nýkomnir frá mótmælagöngunum í Tromsö og það er gott að koma heim í góðu skapi frá Evrópuumræðunni. ( Gripið fram í: En þreyttir í fótunum.) Ég fullyrði ekkert um það hversu menn eru á sig komnir í fótunum eða annars staðar en það kemur vonandi í ljós í umræðum dagsins. Það sem ég var að segja hér, virðulegi forseti, er að það er nauðsynlegt að samskipti þeirra aðila sem eiga að annast náttúruvernd og almennings í landinu séu mjög góð. Ég tek undir það sem hefur komið fram í umræðunni að við náum litlum árangri í náttúru- og umhverfisvernd ef þjóðin er ekki vel upplýst og ef hún er ekki umhverfissinnuð.
    Það var afar fróðlegt þegar ég átti þess kost í vor að fara í heimsókn til Frakklands ásamt fleiri þingmönnum. Þá heimsóttum við umhvrn. í Frakklandi og hittum þar umhvrh. sem er vel þekktur maður í Frakklandi því að hann skipulagði vetrarólympíuleikana í Albertville á sínum tíma. Það var mjög merkilegt að hlusta á það hverjir voru helstu málaflokkar hans. Í Frakklandi er umhvrn. fyrst og fremst að glíma við afleiðingar neyslusamfélagsins og sorp og vatnsvandamál eru þeirra stóru mál. En það sem mér fannst einkum merkilegt að heyra hjá honum var það mikla átak sem ráðuneytið hefur gert í fræðslumálum og í því að draga almenning inn í umhverfisvernd og inn í störf að náttúruvernd. Hann sagði okkur m.a. frá ýmsum verkefnum sem hafa verið unnin í samvinnu við skóla til þess einmitt að gera nemendur meðvitaða um nauðsyn umhverfisverndar og umhverfismála. Ég held að einmitt á þessu sviði þurfi verulegt átak, að við snúum okkur miklu meira að því að fræða allan almenning og að fá fólk til þess að skilja samhengið milli okkar daglegu hegðunar, milli þeirrar neyslu sem er á hverju einasta heimili og hvað við gerum við úrganginn og yfir í það hvernig við umgöngumst náttúruna í kringum okkur. Allt skiptir þetta máli og er alveg sama hvaða lög og reglur við setjum ef almenningur og reyndar hver einstaklingur er ekki meðvitaður um sinn þátt og sínar skyldur í umhverfisvernd þá gengur auðvitað mjög hægt. Ég held að ekki síst þarna þurfi að taka á í náttúruvernd.
    Aðeins meira um þessi samskipti við almenning. Það hefur verið áberandi í umræðunni að þingmenn Norðurl. e. hafa tekið til máls. Það er ekki bara af því að þeir eiga sæti í hv. umhvn. heldur má segja að í kjördæmi þeirra hefur verið við sérstakan vanda að glíma. Það er einmitt mjög umhugsunarvert í þessu samhengi hvernig þetta kemur allt heim og saman þegar fólk, sem eru afkomendur bænda í marga, marga ættliði, stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að lifa og búa í náttúruperlu, að búa í mjög sérstöku umhverfi sem annars vegar er undir miklum áhrifum náttúruaflanna og steðji að þeim nokkur eyðing vegna sandfoks og uppblásturs. Hins vegar eru það hinir mannlegu þættir, annars vegar mikill ferðamannastraumur og svo kísilgúrverksmiðjan sem byggð hefur verið á þessu mjög svo sérstæða svæði. Þetta er auðvitað ákveðinn vandi og í mínum huga er alveg ljóst að því fólki sem þarna býr finnst að sér hert með þeim reglum sem settar hafa verið og þeim umræðum sem hafa orðið um náttúruvernd. En það vill svo til að þetta svæði er náttúruperla og náttúran á í öllum tilvikum að njóta vafans. En auðvitað verður að finna lausn á vanda eins og þessum.
    Hæstv. umhvrh. hefur haft hugmyndir og ætlar sér að gera hluta Snæfellsnessins að þjóðgarði og auðvitað er ákaflega mikilvægt að þegar kemur að þeirri framkvæmd gerist það í sæmilegri sátt við bændur. Það eru miklar náttúruperlur á Snæfellsnesi. Þær eru kannski ekki nýttar á sama hátt og gerist í Mývatnssveitinni. Þarna er útvegur meira og minna orðinn samþjappaður og ekki um það að ræða að það rekist t.d. á hagsmuni heimamanna. En þarna þarf að auka skilning fólks á því í hvers konar náttúru það lifir og ef ríkisvaldið tekur á sig þá ábyrgð að lýsa svæði þjóðgarða, þá verður auðvitað um leið að taka ábyrgð á því fólki sem þar býr. Það að við friðlýsum náttúru má ekki verða til þess að hrekja fólk í burtu eða rýra kjör en samt sem áður á náttúran að njóta vafans. Mér finnst það vera grundvallaratriði. Þessi samskipti eru afar mikilvæg og þarna þarf að auka fræðslu miklu meira en hefur verið gert hér á landi, við eigum mjög mikið óunnið í þeim efnum.
    Aðeins varðandi ýmis svið sem falla undir umhverfismál vil ég taka undir það sjónarmið að mér

finnst að bæði skógrækt og landgræðsla eigi heima undir umhvrn. Þetta eru mál sem snúa að náttúrunni fyrst og fremst þó að þarna sé um töluvert mörg störf að ræða. Þetta er hluti af náttúruvernd og það skiptir máli að samhengi sé milli landgræðslu eða skógræktar, skipulags svæða og umhverfisverndar í heild. Ég vil ítreka þá skoðun mína, sem ég held að hv. þm. Tómas Ingi Olrich hljóti að taka undir, að við þurfum að skoða yfirbygginguna í íslensku samfélagi og átta okkur á því hvort við getum ekki gert þar verulega breytingu. Það er skoðun mín að við eigum að sameina atvinnumálaráðuneytin í eitt stórt ráðuneyti atvinnumála og þar með talið landbrn. Ef slíkt kæmist í framkvæmd væri eðlilegt að þættir sem heyra beint undir náttúruvernd færist undir umhvrn. Í alvöru talað þurfum við að fara að skoða þessa miklu yfirbyggingu hjá okkur.
    Engin heildarlög eru til og auðvitað er spurning hvort það er rétt að hafa einhver heildarlög um umhverfismál og umhverfisvernd og réttindi og skyldur fólks og sveitarfélaga í þeim efnum. Það er umhugsunarvert. En það er að minnsta kosti ljóst að það vantar mjög mikið yfirsýn yfir þessi mál. Ég var einmitt að velta því fyrir mér hvernig þessi lög sem hér eru til umræðu ná til þéttbýlisins. Mönnum er svo gjarnt að horfa á náttúruna fyrir utan þéttbýli en það er ekkert síður á þéttbýlisstöðum sem þarf að gefa gaum að náttúruvernd og verndun umhverfisins almennt.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta en mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. umhvrh. hvort hann hafi velt fyrir sér þeirri spurningu hvort fornleifar eigi heima undir umhvrn. Sú leið hefur verið farin á Norðurlöndunum og víðar reyndar, í Svíþjóð líka, að taka fornleifar undir umhvrn. vegna þess að fornleifar eru í náttúrunni og þær tengjast skipulagi og slíku. Það tengist því hvernig á að varðveita og skipuleggja og mér hefur fundist þetta mjög athyglisverð leið sem hefur verið farin á Norðurlöndunum í þessum málum. Mér fyndist í rauninni að þetta væri leið til að styrkja umhvrn., að það ráðuneyti fengi þennan málaflokk. Ég get ekki séð að fornleifar eigi neitt frekar heima undir menningarmálum en umhverfisvernd og þetta tengist því einmitt að horfa á náttúruna í heild.
    Aðeins varðandi frv. sjálft þá hef ég verið að velta svolítið vöngum yfir því skipulagi sem hér er sett fram. Ég skil að sjálfsögðu nauðsyn þess að breyta lögunum í ljósi þess að umhvrn. er komið til sögunnar og auðvitað þarf að skilja að ríkisrekstur og svo það sem hingað til hefur heyrt undir Náttúruverndarráð og verið meira málefni þeirra sem þar koma að. En mér finnst hlutverk Náttúruverndarráðs í þessu í framtíðinni svolítið umhugsunarvert. Að mörgu leyti er það mikill kostur að almannasamtök skuli koma að málefnum eins og þessum. Auðvitað er meiningin að halda því áfram en þetta er samt í rauninni svolítið sérkennilegt fyrst verið er að breyta þessu á þennan hátt. Af hverju ekki þá bara hreinlega að leggja Náttúruverndarráð niður? Mér finnst hlutverk þess í kerfinu sem hér er verið að setja upp svolítið óljóst. Það stendur í k-lið, með leyfi forseta: ,,Hlutverk Náttúruverndarráðs er að stuðla að almennri náttúruvernd í landinu og vera stjórnvöldum til ráðgjafar.`` Þetta er eins konar ráðgjafarnefnd sem þarna á að koma til og það er ætlast til að hún reki skrifstofu og ráðið á að fjalla ítarlega um náttúruminjaskrá og annast vörslu friðlýsingarsjóðs, standa fyrir fræðslu og fleira slíkt. Með þessu er komið þrefalt kerfi, þ.e. umhvrn., Landvarsla ríkisins og síðan Náttúruverndarráð. Ég held að nefndin hljóti að skoða svolítið hvort í rauninni er ekki verið að gera þetta skipulag óþarflega flókið. En ég vil taka það skýrt fram að ég er mjög hlynnt því að almenningur og samtök sem stofnuð hafa verið til náttúruverndar eigi greiðan aðgang að stjórnvaldinu og það sé hlustað á þeirra sjónarmið. En ef maður bara horfir á þetta út frá löggjafanum og ríkisvaldinu þá er það spurning hvort það sé verið að gera þetta óþarflega flókið.
    Virðulegi forseti. Það mátti heyra í upphafi þessarar umræðu að ýmsir ræðumenn höfðu ýmislegt við þetta frv. að athuga þannig að það getur nú eitt og annað gerst í meðferð nefndarinnar og hæstv. umhvrh. lýsti því yfir að hann væri tilbúinn til þess að skoða m.a. skipan stjórnarinnar og það verður þá skoðað. En mín meginniðurstaða er sú að það þarf að styrkja náttúru- og umhverfisvernd í landinu, það þarf að veita meira fjármagn til þeirrar starfsemi, það þarf mjög að auka umhverfisfræðslu í okkar samfélagi. Ég held að einmitt með því móti verði hægt að koma í veg fyrir átök og árekstra í framtíðinni vegna þess að oft og tíðum stafa þeir af því að það er ekki skilningur á milli, fólk er ekki upplýst um það hvað er í húfi og það sjónarmið að það sé náttúran og heildarhagsmunir þjóðarinnar sem ráði för, það sjónarmið er því miður ekki ríkjandi í umræðunni, en á því þarf að verða breyting.