Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 11:52:43 (1578)


[11:52]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir að veita andsvar í tilefni af því að inn í þessa umræðu hefur borist gömul deila um það hvar á að vista landgræðslu og skógrækt. Nú er það svo að ég hef sjálfur um nokkurt árabil haft á þessu nokkuð mótaðar skoðanir, þ.e. að það kæmi til greina að þessir málaflokkar væru að talsverðu leyti á snærum landbrn. Ég tel hins vegar að hlutirnir hafi þróast með þeim hætti og þá er ég auðvitað ekki að gagnrýna þessar stofnanir í sjálfu sér, það er mjög langt frá því, en ég held að menn eigi að velta því mjög alvarlega fyrir sér að endurskoða lögin um landgræðslu og skógrækt og yfirstjórn þessara mála og þar með það hvort þessar stofnanir eigi að fara undir umhvrn.
    Þetta vekur til umhugsunar um það hvort ekki sé nauðsynlegt að á þessu máli verði tekið á þessu þingi, þó stuttur tími sé eftir, vegna þess að það er, eins og hæstv. umhvrh. sagði áðan, nauðsynlegt að svona mál séu uppgerð áður en kemur til nýrrar stjórnarmyndunar. Mál af þessum toga breytast aldrei inni í ríkisstjórnum vegna þess að þar sleppa menn aldrei neinu af því sem þeir hafa fengið.
    Ég nefni þetta vegna þess, hæstv. forseti, að ég vildi gjarnan hreyfa þeirri hugmynd að á þessum málum eigi að taka og það eigi ekki að hafa þetta innanhússmál á milli hæstv. landbrh. og hæstv. umhvrh. Þó að þeim virðist að vísu koma mjög vel saman og séu báðir tveir um flest hinir mætustu menn þá finnst mér vafasamt að treysta þeim einum, þessum tveimur mönnum, fyrir örlögum málsins og því nefni ég það hér.