Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 11:58:58 (1582)


[11:58]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ummæli hv. 9. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, vöktu athygli mína þar sem það virtist vera uppistaðan í hans málflutningi annars vegar að hér inni í hinum háu þingsölum væri almennt litið svo á að landgræðsla og skógrækt ættu að falla undir umhverfismál og hins vegar að það hefði verið einkasamkomulag mitt og umhvrh. að þetta mál hefði ekki verið tekið upp á hinu háa Alþingi. Málið er auðvitað þannig að hv. þm. hefur til þess fulla burði og fulla einurð að taka mál upp á Alþingi ef honum svo sýnist og auðvitað er það honum sjálfsagt eins og öðrum þingmönnum að flytja um það frv. að færa landgræðslu og skógrækt yfir í umhvrn. Nú er hann einn af þeim mönnum sem hugsaði það í upphafi hvernig staðið yrði að því ráðuneyti, lagði drög að því hvaða málaflokkar færu þangað inn og það vildi svo til einnig á þeim tíma að annar þingmaður Alþb., hv. þm. Steingrímur Sigfússon, fór með landbúnaðarmál og lagði þar áherslu á það að þessir málaflokkar, landgræðsla og skógrækt, væru vistuð í landbrn. og má raunar segja kannski að það hefði verið eðlilegt vegna kunnugleika þess hv. þm. á þeim málum. Ég hygg að það sé líka ástæða til að árétta það nú hér við þessar umræður að landgræðslu- og skógræktarstörf hafa nú á síðustu missirum í vaxandi mæli verið að færast yfir til bænda og í sambandi við þær miklu búháttabreytingar sem nú eru í deiglunni og við sjáum fram á hefur verið lögð rík áhersla á það að bændur tækju meiri þátt í vörslu landgæða, í landgræðslu og skógrækt en verið hefur. Ég verð að vísu að játa það að vegna erfiðra efnahagsástæðna hefur mér ekki tekist að tryggja fé til þessara málaflokka sem ég hefði kosið en á hinn bóginn held ég að það sé alveg ljóst að þau breyttu viðhorf sem við sjáum nú í þjóðfélaginu víðs vegar eiga rætur sínar ekki síst í þeirri grasrótarhreyfingu sem bændastéttin sjálf er í verndun landsgæðanna. Það væri þess vegna mjög illa til fallið nú að fara að tala um það að reyna að slíta í burtu þau sterku tengsl sem eru á milli landbúnaðarins og landgræðslu, skógræktar o.s.frv.
    Ég held að það sé líka ástæða til þess að minna á að vaxandi skilningur er nú fyrir því hversu nauðsynlegt það er að sveitarfélögin, héraðsnefndirnar, láti meira til sín taka á þessum vettvangi, að náttúruverndin og varsla landsgæða hverfi heim í héruðin, en það er í andstöðu við þær yfirlýsingar sem hv. þm. lét hér í ljós. Ég held þess vegna að hans orð séu lýsandi fyrir vissan hluta í Alþb. en á hinn bóginn eigi ekki sterkan hljómgrunn.