Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 12:08:26 (1587)


[12:08]
     Valgerður Sverrisdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þannig er með mig að ég get verið sammála hæstv. landbrh. hvað það snertir að Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins eigi að heyra undir landbrn. en ég vildi hins vegar upplýsa hæstv. landbrh. um það ef hann hefur ekki vitað það að hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd sem gengur út á það að svokölluð Landvarsla ríkisins hafi mikil völd, ef þetta frv. verður að lögum. Frv. gengur út á mikla miðstýringu, ég held að því sé ekki að neita.
    Hæstv. landbrh. sagði hins vegar hér í sínu máli að hann telji að Landvarslan eigi að flytjast heim í héruð. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. landbrh. sem ráðherra í þessari ríkisstjórn hvort hann styðji það stjfrv. sem hér er til umfjöllunar.