Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 12:12:56 (1590)


[12:12]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Það var ekki rétt sem hv. þm. sagði og ekki hægt að draga þá ályktun af mínum orðum að það væri alger ósamstaða um þetta frv. innan ríkisstjórnarinnar. Hitt hefur legið fyrir að ég vil ganga lengra og hraðar en ýmsir aðrir hér í þingsölum, þar á meðal hv. þm. Það má auðvitað segja sem svo að ég vilji ófrið ef menn nota orðið ófrið í þeirri merkingu að einhver vilji fara hraðar en aðrir. Það eru fæst mál þannig að allir séu fullkomlega sáttir við niðurstöðu mála, fæst mál þannig líka að menn séu fullkomlega sáttir við ládeyðu. Hins vegar er það misskilningur hjá hv. þm. ef hann hefur talið sjálfum sér trú um það að t.d. sveitarstjórnarmenn eða fólk almennt í Norðurl. e. hafi ekki velt þessum málum fyrir sér og ef hv. þm. telur að þar séu ekki uppi þær raddir sem telja að Norðlendingar eigi að koma fastar og meir að vörslu Jökulsárgljúfra og Laxársvæðisins en verið hefur. Menn eru þeirrar skoðunar að það sé rétt að rödd Norðurlands heyrist sterkara á fundum þeirra sem ráða þar málum en verið hefur og þetta frv. gefur möguleika til þess.