Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 12:14:28 (1591)


[12:14]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð satt að segja að viðurkenna það að ég varaði mig ekki á því að í andsvari mínu hér áðan var ég að kveikja verulega langa umræðu og hafði nú ekki hugsað mér málið þannig, en satt að segja finnst mér að viðbrögðin sem ég hef fengið staðfesti að það sé eðlilegt að þessi umræða sé tekin upp í þessari virðulegu stofnun. Það er greinilegt að það er um að ræða ansi mikinn ágreining og ég hygg að hann sé kannski ekki eins skarpur eins og menn vilja vera láta. Ég held að það sé kannski dálítið til í því hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. að að sumu leyti geti menn alveg hugsað sér að það séu átök um mál af þessum toga til þess að geta haldið til haga sínum sjónarmiðum með og á móti eins og þau koma fyrir á hverjum tíma eftir atvikum.
    Ég vil segja t.d. varðandi það sjónarmið sem hefur verið rætt í morgun, hvort heimamenn eigi að hafa yfirstjórn þjóðgarða í sínum höndum einir, þá teldi ég það algjörlega fráleitt satt að segja. Þjóðgarður er þjóðgarður og þjóðin öll á þjóðgarðinn. Þannig að það þarf að tryggja það að þjóðin, með þeim hætti sem hún kýs á hverjum tíma, hafi með að gera stjórn þjóðgarðanna. Hins vegar er það líka alveg rétt hjá hæstv. landbrh. að yfirstjórn t.d. þjóðgarða þarf að vera í eins góðri sátt við heimamenn eins og kostur er og reyndar þarf, að mínu mati, að leggja á það alveg sérstaka áherslu að heimamenn geti komið að málinu með einhverjum hætti þannig að það sé um það að ræða að þeir upplifi þetta ekki sem framandi íhlutun í sitt eigið umhverfi heldur sem hluta af þeim veruleika sem þeir vilja taka þátt í að verja, varðveita eftir atvikum eða að glæða nýju lífi, allt eftir því hvað við á á hverjum stað og hverjum tíma.
    Þess vegna finnst mér ekki hægt að afgreiða þetta mál með því að segja: Heimamenn bera best skynbragð á þessi mál og þess vegna eiga þeir að ráða þeim. Málið er ekki alveg svona einfalt. Og eins og hv. 1. þm. Vesturl., Sturla Böðvarsson, sem er formaður þjóðminjaráðs, benti á áðan þá geta orðið andstæður á milli nýtingarsjónarmiða og varðveislusjónarmiða. Það geta orðið mjög harðar og erfiðar andstæður t.d. á milli skipulagsstjórnar ríkisins og fornleifavörslunnar í landinu vegna þess að skipulagsstjórnin eða sveitarfélögin vilji nýta tiltekið svæði með tilteknum hætti en það stangist á við hugmyndir fornleifavörslunar um það að geyma þessi svæði til fornleifarannsókna. En það er, eins og kunnugt er, skoðun margra fornleifafræðinga að það sé best að geyma fornleifarnar í jörðu og helst aldrei að grafa þær upp vegna þess að þeim sé yfirleitt spillt þegar þær séu grafnar upp úr jörðinni.
    Þar af leiðandi erum við komin hér að almennum málum sem mér finnst eðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir um, en ég frábið mér það alveg að við séum að setja þetta upp í þeim farvegi að sumir séu hinir góðu fulltrúar heimamanna og aðrir séu hinir vondu fulltrúar hins mikla og vonda ríkis. Þetta er nú þannig þegar allt kemur til alls að flestir þeir sem eru stundum að ráðast að ríkinu hafa iðulega talað fyrir það og haft með hagsmuni þess að gera. Og hvað er ríkið? Það birtist í ríkinu sú ákvörðun sem þjóðin tekur á hverjum tíma í kosningum og í meiri hluta Alþingis.
    En varðandi það mál sem ég kom að í andsvari þá er það heldur ekki þannig eins og hæstv. landbrh. orðaði það áðan. Ég skil ekki af hverju er verið að tala við mann með þessu orðafari, ég átta mig ekki á því. Það er sagt að ég hafi sagt: Sjónarmið annarra eiga að víkja. Ég sagði það aldrei. Ég var að hvetja til þess að menn hefðu hér rökræna umræðu um þessi mál vegna þess að það er ekki sátt um þau. Þó að hæstv. landbrh. ráði yfir málunum núna þá er ekki þar með sagt að það sé sátt um málin. Það þarf að finna sáttagrundvöll. Það er hægt að gera það með ýmsum hætti. Það er hægt að gera það með þeim hætti að fara yfir málin í ítarlegum og löngum umræðum á grundvelli frumvarpa sem stjórnarandstaðan flytur á hverjum tíma, en það er líka hægt að gera það með því að menn beri saman bækur sínar í rólegheitum og reyni að komast að niðurstöðu.
    Ég tel t.d. að það væri ekki mínum sjónarmiðum í þessu máli til framdráttar að fara að flytja frv. til laga um breytingu á yfirstjórn Landgræðslunnar. Það yrði óðara tekið sem persónuleg árás á þá menn sem þar eru í forustu og ég kæri mig ekki um að hlutirnir séu settir upp í því samhengi af því að ég vil gera gagn með því að vera hér en ekki að búa til stríð um þau mál sem uppi eru á hverjum tíma og ég vil laga. Þess vegna tel ég að það sé eðlilegt að menn beri saman bækur sínar. Ég heyri í rauninni ekki

að landbrh. sé ósammála mér um eitt einasta atriði efnislegt í málinu. Hann er að sjálfsögðu ósammála mér um það sem hann leggur mér í munn og ég hef aldrei sagt, þegar hann býr til andstæðing úr mér, en það tekst honum ekki í þessari umræðu alla vega.
    En ég held að aðalatriðið sé að menn átti sig á því að þegar núv. ríkisstjórn var mynduð þá voru deilur um þessi mál. Fyrrv. hæstv. umhvrh., Eiður Guðnason, lét það aftur og aftur koma fram að hann væri ósáttur við þessi mál. Það voru höfð viðtöl við núv. hæstv. landbrh. og fyrrv. hæstv. umhvrh. um þessi mál hvað eftir annað í öllum fjölmiðlum. Síðan gerist það að þessir hlutir malla í ríkisstjórninni og menn vilja ekki vera að efna til deilna um þessi mál svona opinberlega af því að nóg er nú samt í þessari blessaðri stjórn og ég skil það svo sem vel að menn telja að það sé nóg rifrildið út af ýmsum öðrum hlutum þarna. Þess vegna hafa menn ekki verið að fara sér mjög óðslega í að rífa upp deilur um þessi mál í ríkisstjórninni og ég skil það vel, enda held ég að það sé kannski heldur ekki málinu til framdráttar að fara að efna til úfa með mönnum í fjölmiðlum.
    Hins vegar er það þannig að þessi umræða sem hér hefur farið fram er í raun og veru mjög lítil og mjög stutt. Hún upplýsir að það þarf að tala um málið. Það þarf að fara yfir málið og skoða rök þessa máls. Ég held að það sé skynsamlegt að gera það í tengslum við þá umræðu sem fram fer um þetta frv. í umhvn. þannig að menn geti borið sig saman um málið, án þess að ég sé að hvetja til þess og ég endurtek það að ég tel að stríð um málið þjóni engum tilgangi. Ég tel hins vegar ljóst að það er ekki sátt um það og þess vegna, einmitt kannski vegna landbúnaðarins, vegna landgræðslu og skógræktar, þá þurfa menn að halda þannig á þessum málum að það verði sátt um þau. Því það er slæmt fyrir bændur m.a. og aðra sem búa næst þessum verkefnum og sinna þeim, að það séu undirliggjandi og undir niðri hugsanleg átök um málið. Þess vegna er skynsamlegt að ræða það í rólegheitum og reyna að stuðla að sátt sem stjórnkerfið er sátt við, en það er alveg ljóst að það er engin sátt um málið þegar hæstv. umhvrh. segir: ég vil málið, og hæstv. landbrh. segir: ég vil ekki sleppa málinu. Þá er stríð um málið, það er svoleiðis þó að þeir fari vel með það.